Lífeyrissjóður verslunarmanna krefst þess að bakarí Jóa Fel verði tekin til gjaldþrotaskipta vegna vangoldinna iðgjalda. Þau hafi verið innheimt af launum starfsfólks en ekki skilað til sjóðsins.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem segir einnig að fyrirtækið hafi ekki greitt mótframlag af launum starfsmanna til lífeyrissjóðsins. Skuld fyrirtækisins við LIVE hafi safnast upp frá því í fyrra.
Málið er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur þann 9. september.
Í frétt Morgunblaðsins segir að rætt hafi verið við einn starfsmann fyrirtækisins sem hafi verið neitað um sjóðfélagalán hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, vegna þess að iðgjöld viðkomandi höfðu ekki borist til sjóðsins.