Innlent

Fjögur brot á reglum um lokun sam­komu­staða til rann­sóknar

Sylvía Hall og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Lögregla leit við á um fimmtíu samkomustöðum um helgina.
Lögregla leit við á um fimmtíu samkomustöðum um helgina. Vísir/Vilhelm

Lögregla hafði eftirlit með sóttvörnum á samkomustöðum í Reykjavík í gærkvöldi og vitjaði sex staða í miðborginni, en þar af var ástandið mjög gott á fimm stöðum. Að sögn lögreglu þurfti þó að skipa starfsmönnum að breyta borðaskipan á einum stað, svo tryggja mætti tveggja metra regluna.

Þá fór lögreglan einnig á fjóra staði í póstnúmerum 104 og 108 og kannaði aðstæður. Þar voru tveir staðir til fyrirmyndar og á einum þurfti aðeins að gera smávægilegar breytingar á borðaskipan. Á fjórða staðnum voru aðstæður hins vegar óviðunandi þar sem of margir gestir sátu allt of þétt á tilteknu svæði á staðnum að mati lögreglu.

Starfsmönnum var gert að gera tafarlausar úrbætur á ástandinu, sem þeir og gerðu en skýrsla verður gerð um brotið að því er fram kemur í dagbók lögreglu. 

Um helgina leit lögreglan við á um fimmtíu samkomustöðum og var ástandið gott á þeim flestum. Fjögur brot á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu eru þó til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×