Fótbolti

Hetja Bæjara vinnur titil á níu leikja fresti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kingsley Coman fagnar sigurmarkinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.
Kingsley Coman fagnar sigurmarkinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gærkvöldi. EPA-EFE/JOSE SENA GOULAO

Kingsley Coman var hetjan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár en hann skoraði eina mark leiksins í gærkvöldi í 1-0 sigri Bayern München á Paris Saint Germain. Coman var einnig kosin maður leiksins.

Það bjuggust kannski flestir við því að stórstjörnurnar Robert Lewandowski, Kylian Mbappe eða Neymar myndu gera út um leikinn en þess í stað var það 24 ára Frakki með afar merkilega ferilskrá.

Kingsley Coman varð í gær sá næstyngsti, á eftir Lionel Messi, til að vera kosinn besti leikmaður úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Messi var einu ári yngri.

Það var líka kaldhæðni örlaganna að það skyldi vera maðurinn frá París sem kom í veg fyrir að París eignast Meistaradeildarmeistara í fyrsta sinn. Paris Saint Germain hefur aldrei unnið Meistaradeildina en Kingsley Coman fæddist í París 1996 og var í áratug hjá félaginu.

„Þetta er stórkostleg tilfinning. Ég finn til mikillar gleði en ég er líka smá leiður fyrir hönd Parísar. Ég finn aðeins til með þeim þó að ég sé hundrað prósent Bayern maður,“ sagði Kingsley Coman eftir leikinn.

Kingsley Coman var í unglingaliði PSG frá 2004 til 2013 og hélt með Paris Saint Germain þegar hann var strákur.

„Kannski komst hann loksins út úr skugga þeirra Franck Ribery og Arjen Robben. Kingsley hefur ótrúlega hæfileika og sýndi í kvöld að hann getur líka skorað mörk,“ sagði Hansi Flick, þjálfari Bayern, sem setti Kingsley Coman inn í liðið fyrir úrslitaleikinn.

Kingsley Coman hefur þrátt fyrir ungan aldur átt ótrúlega sigursælan feril. Hann varð tvisvar franskur meistari sem kornungur leikmaður PSG, kom inn á sem varamaður í einum leik bæði 2012-13 og 2013-14 tímabilin. Coman hefur síðan getað kallað sig meistara síðan.

Kingsley Coman hefur verið landsmeistari á öllum sínum níu tímabilum í meistaraflokki. Hann fór frá París til Juventus þar sem hann varð tvisvar ítalskur meistari og eini sinni bikarmeistari.

Coman kom síðan til Bayern München árið 2015 en hann var fyrst lánaður í tvö tímabil. Hann hefur orðið þýskur meistari fimm ár í röð, unnið tvennuna þrisvar og nú þrennuna í fyrsta sinn.

Kingsley Coman hefur nú þegar unnið tuttugu stóra titla á ferlinum og til þess á ferlinum hefur hann unnið titil á níu leikja fresti sem er ótrúleg tölfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×