Enski boltinn

Wayne Rooney hefur áhyggjur af því að Liverpool næli í Thiago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Alcantara með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Bayern München í úrslitaleiknum í Lissabon í gær.
Thiago Alcantara með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Bayern München í úrslitaleiknum í Lissabon í gær. EPA-EFE/Miguel A. Lopes

Thiago Alcantara sýndi stuðningsmönnum Liverpool hvað þeir gætu átt von á með stórleik sínum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Wayne Rooney vonast til þess að Thiago endi ekki á Anfield.

Liverpool hefur verið orðað við spænska miðjumanninn Thiago Alcantara í sumar en hinn 29 ára gamli Thiago er sagður vilja prófa eitthvað nýtt á sínum ferli.

Erlendir blaðamenn haga verið duglegir að skrifa Thiago til Liverpool og það eina sem er sagt standa í vegi fyrir því er mögulega of hátt verð sem Bayern vill fá fyrir hann.

Wayne Rooney er ekki hrifinn af því að Liverpool liðið gæti fengið mann eins og Thiago Alcantara.

Wayne Rooney vill að Thiago velji frekar einhvern annan kost en að styrkja miðju Liverpool liðsins.

Thiago Alcantara var umferðastjóri Bæjara á leið þeirra að Meistaradeildartitlinum og hefur verið mjög sigursæll hjá bæði Bayern og Barcelona.

„Hann kom næstum því til United árið 2013 og nú er Liverpool orðað við hann. Hann er einn besti miðjumaðurinn í heimi og ég vona að hann komi ekki til Liverpool,“ skrifaði Wayne Rooney í pistli sínum í Sunday Times.

„Hann getur unnið boltann, er yfirvegaður með hann og heldur hlutunum gangandi. Hann er alhliða miðjumaður og hefur eitthvað af öllu,“ skrifaði Rooney.

„Hann bakkar upp pressuna hjá Bayern og dettur niður á völlinn til að fá boltann frá miðvörðunum en um leið er hann líka mættur þegar liðið spilar í hringum hinn teiginn,“ skrifaði Wayne Rooney.

„Thiago eru frábær leikmaður og það væri vissulega gaman að sjá hann í ensku úrvalsdeildinni,“ skrifaði Wayne Rooney en bara ekki í Liverpool-liðinu. Rooney þekkir ekkert annað en að „hata“ Liverpool, enda uppalinn hjá Everton og lék svo stærsta hluta ferils síns með Manchester United.

Thiago Alcantara hefur unnið níu landstitla á ferlinum með Barcelona og Bayern auk fimm bikarmeistaratitla. Þá vann hann Meistaradeildina líka með Barcelona árið 2011 sem og heimsmeistarakeppni félagsliða sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×