Innlent

„Mjög rólegt veður“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vænta má þægilegs veðurs í höfuðborginni í dag, þó svo að að kunni að vera eilítið skýjað.
Vænta má þægilegs veðurs í höfuðborginni í dag, þó svo að að kunni að vera eilítið skýjað. Vísir/Vilhelm

Hlýjast verður á Suðausturlandi í dag en þar má búast við björtu og fallegu veðri. Það er áfram „mjög rólegt veður í vændum í dag“ að sögn veðurfræðingins, vindur hægur og áttin vestlæg eða breytileg.

Hitinn verður á bilinu 9 til 17 stig á landinu, skýjað að mestu á vestanverðu landinu og lítilsháttar væta á stöku stað. Bjart með köflum í öðrum landshlutum, en sums staðar þokuloft við norður- og austurströndina.

Það mun síðan hvessa örlítið á morgun, þá má búast við vestan 5 til 10 m/s, „sem telst nú reyndar ekki mikill vindur á íslenskan mælikvarða,“ segir veðurfræðingur. Skýjafar á morgun verði þó svipað og í dag.

„Vestanáttin ýtir skýjum upp á vestanvert landið og þar verður því skýjað að mestu og á stöku stað gæti fallið rigning af minnstu sort. Í öðrum landshlutum eru líkur á björtum köflum, en þokuloft gæti látið á sér kræla, einkum með norður- og austurströndinni“

Þá virðist vera nokkur væta í kortunum næstu daga, jafnvel fram í byrjun næstu viku. Það verður þó tæpast mikil rigning, kannski einna helst á sunnudag. Þó má búast við ágætis hlýindum og að hitinn geti víða náð allt að 18 stiga hita.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Vestan 3-8 m/s og skýjað á vestanverðu landinu. Bjart með köflum í öðrum landshlutum, en sums staðar þokuloft við norður- og austurströndina. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á föstudag:

Vestan og norðvestan 5-10 m/s. Skýjað og dálítil væta, en yfirleitt þurrt á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Hæg suðvestlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu og lítilsháttar væta í flestum landshlutum. Hiti 10 til 15 stig.

Á sunnudag:

Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu, en hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi fram á kvöld. Hiti 11 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á mánudag og þriðjudag:

Suðlæg átt með vætu, en úrkomuminna norðanlands og hlýtt á þeim slóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×