Þrátt fyrir rýra uppskeru það sem af er tímabili nýtur Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, trausts stjórnar knattspyrnudeildar félagsins.
„Nei, í stuttu máli ekki. Við stöndum við bakið á okkar manni,“ sagði Kolbeinn Kristinsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis, aðspurður hvort það hefði komið til tals að skipta um þjálfara hjá liðinu.
Fjölnir er á botni Pepsi Max-deildar karla með fjögur stig, fimm stigum frá öruggu sæti, og hefur ekki enn unnið leik. Í gær tapaði Fjölnir fyrir Fylki, 2-0.
„Fyrst og síðast þurfum við að fá úrslit inni á vellinum. Við teljum okkur hafa hafa eitthvað verið óheppna með meiðsli, færanýtingu og annað slíkt. En í lok dagsins eru það bara stigin á töflunni sem telja og þau hafa ekki verið nógu mörg hingað til. En við höfum fulla trú á Ása og þjálfarateyminu. Það vinnur sína vinnu vel að okkar mati,“ sagði Kolbeinn.
Félagaskiptaglugginn er opinn og verður opinn til 1. september. Fjölnismenn freista þess að styrkja leikmannahóp sinn fyrir seinni hluta tímabilsins.
„Við erum að skoða leikmenn, bæði innanlands og erlendis. En þetta er gamla klisjan, það eru margir um hituna og að bítast um sömu leikmennina. Vonandi kemur eitthvað nánar í ljós á næstu tveimur dögum. Við stefnum á að styrkja liðið, engin spurning. Við ætlum ekkert að leggja árar í bát og erum ekki hættir þótt stigin séu fá. Þetta er fljótt að snúast við og við eigum tíu leiki eftir,“ sagði Kolbeinn.
Fjölnir átti að mæta Breiðabliki á sunnudaginn en þeim leik var frestað vegna þátttöku Blika í forkeppni Evrópudeildarinnar. Samkvæmt dagskránni er næsti leikur Fjölnis ekki fyrr en gegn Gróttu mánudaginn 14. september, eftir þrjár vikur. Kolbeinn á síður von á því að það líði svo langt á milli leikja.
„KSÍ og félögin berjast í þessu á hverjum einasta degi, að hreyfa og færa mótið til. Ég neita að trúa því að það komi þriggja vikna hlé hjá okkur. Það þarf að spila þétt ef þetta á að klárast fyrir jól. Það er verið að reyna að færa leiki,“ sagði Kolbeinn að lokum.