Farþegar smárútunnar sem fór út af veginum við Skaftafell í gærkvöldi voru 13 og 14 ára drengir í fjórða flokki fótboltaliðsins Sindra frá Höfn í Hornafirði. Þjálfari þeirra ók rútunni. Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins.
Drengirnir voru ásamt þjálfara sínum á leið til Hafnar eftir fótboltaleik á Hvolsvelli. Þjálfarinn er sagður hafa misst stjórn á rútunni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Allir farþegarnir og ökumaður voru í kjölfarið fluttir með tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar til aðhlynningar á Landspítalanum í Reykjavík.
Þegar tilkynning barst um slysið í gær var hópslysaáætlun virkjuð í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.
Í samtali við Vísi segir Sigurður Ægir Birgisson, formaður yngriflokkaráðs Sinda, að betur hafi farið en á horfðist. Miðað við útlitið séu fréttirnar af drengjunum og þjálfaranum góðar.
„Þeir eru á batavegi. Lemstraðir en ekki alvarlega þannig að þeir eiga allir að ná sér fljótlega vonandi,“ segir Sigurður, sem hefur verið í sambandi við foreldra drengjanna sem voru í rútunni.
„Þetta eru mar eftir belti og lítilsháttar brot. Þannig að þetta lítur betur út en á horfðist,“ segir Sigurður.
Hann segir þá að gert sé ráð fyrir að einhverjir drengjanna útskrifist af spítala í dag en aðrir verði einhverju lengur undir eftirliti.