Íslendingar eiga ekki bara sigurvegara í Meistaradeild Evrópu heldur einnig markahæsta leikmann keppninnar.
Sara Björk Gunnarsdóttir varð í gær Evrópumeistari, fyrst íslenskra kvenna, þegar Lyon lagði Wolfsburg að velli í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, 3-1. Sara skoraði þriðja og síðasta mark Lyon í leiknum.
Stalla Söru í íslenska landsliðinu, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, var markahæst í Meistaradeildinni ásamt Vivianne Miedema hjá Arsenal og Emueje Ogbiagbevha hjá Minsk. Þær skoruðu allar tíu mörk.
#UWCL top scorers (including qualifying)
— #UWCL (@UWCL) August 31, 2020
@VivianneMiedema - @ArsenalWFC
Emueje Ogbiagbevha - Minsk @berglindbjorg10 - Breidablik
Miedema finishes top for the 2nd time - watch all her 10 goals pic.twitter.com/OvMJ6r2Jvy
Berglind skoraði sex mörk fyrir Breiðablik í forkeppni Meistaradeildarinnar og fjögur mörk í aðalkeppninni.
Berglind skoraði fernu í 11-0 sigri Breiðabliks á Dragon 2014 í forkeppninni og tvö mörk í 3-1 sigri á SFK 2000.
Hún skoraði þrjú af fjórum mörkum Breiðabliks í einvíginu gegn Sparta Prag í 32-liða úrslitunum sem Blikar unnu, 4-2 samanlagt.
Berglind skoraði svo eina mark Breiðabliks gegn Paris Saint-Germain í sextán liða úrslitunum. PSG vann einvígið, 7-1 samanlagt, og fór alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar.
Auk þess að vera markahæst í Meistaradeildinni var Berglind markadrottning Pepsi Max-deildar kvenna 2019. Hún skoraði þá sextán mörk í sautján leikjum. Berglind er einnig markahæst í Pepsi Max-deildinni 2020 með tólf mörk í aðeins níu leikjum.