Erlent

Segja að það hafi verið svindlað í kosningunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Kosningastarfsfólk í Hvíta-Rússlandi segir að svindlað hafi verið í forsetakosningunum fyrr í mánuðinum. Hundruð þúsunda hafa mótmælt Alexander Lúkasjenko forseta síðustu vikur.

Mótmælin hófust áður en hinar opinberu niðurstöður lágu fyrir, en landskjörstjórn sagði Lúkasjenko hafa fengið um áttatíu prósent atkvæða og þannig náð endurkjöri. Mikill fjöldi landsmanna hefur neitað að viðurkenna niðurstöðurnar. Það hafa mótframbjóðendur Lúkasjenkos og Evrópusambandið ekki heldur gert.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnarandstaðan segir brögð í tafli í forsetakosningum í Hvíta-Rússlandi. Lúkasjenko hefur unnið allar forsetakosningar í sögu landsins og hefur verið sakaður um svindl í öllum utan þeirra fyrstu.

Því þjálfaði stjórnarandstaðan þúsundir landsmanna í aðdraganda kosninganna til þess að fylgjast með framkvæmd þeirra. Þessir kosningastarfsmenn segjast nú hafa orðið vitni að svindli.

„Ég kvað mér til hljóðs þegar ég sá yfirmann á kjörstað setja kjörseðla þar sem merkt var við aðra en Lúkasjenko í bunka með kjörseðlum þar sem merkt var við forsetann. Mér var sagt að róa mig niður, sagði Valería Artíkovskaja kosningastarfsmaður við AP.

Alexander Komíts, eftirlitsmaður á vegum samtakanna Heiðarlegt fólk, sagði að vegna svindls vissi trúlega enginn, ekki einu sinni landskjörstjórn, hvernig kosningarnar fóru í raun og veru. Gögn sem samtökin hafa í fórum sýnum sýni þó fram á að kosningunum hafi verið hagrætt og að stjórnarandstæðingurinn Svíatlana Tsíkanúskaja hafi fengið mun fleiri atkvæði en segir í hinum opinberu niðurstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×