Erlent

Friðarviðræður gætu hafist á næstu dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Afganskur hermaður stendur vörð við vettvang bílasprengju Talibana, þar sem tólf dóu þann 25. ágúst.
Afganskur hermaður stendur vörð við vettvang bílasprengju Talibana, þar sem tólf dóu þann 25. ágúst. Vísir/AP

Ríkisstjórn Afganistan vinnur nú að því að ljúka fangaskiptum, sem eru skilyrði friðarviðræðna, við Talibana. Nærri því 200 af síðustu 400 föngunum hefur verið sleppt. Í friðarsamkomulagi Talibana og Bandaríkjamanna frá því í febrúar kröfðust Talibanar þess að um fimm þúsund meðlimum þeirra yrði sleppt úr haldi ríkisstjórnarinnar.

Í staðinn myndu þeir sleppa um þúsund föngum sínum og friðarviðræður þeirra gætu ekki hafist fyrr. Ríkisstjórn Afganistan hefur þó ekki viljað sleppa öllum föngunum.

Sérstaklega hefur ekki verið vilji til að sleppa 400 manna hópi sem hafa verið kallaðir „harðkjarna“ Talibanar. Þeir eru sagðir hafa komið að einhverjum verstu árásum landsins og yfirvöld í Frakklandi og Ástralíu hafa sett sig gegn því að einhverjum þeirra verði sleppt.

Viðkomandi Talibanar hafi komið að árásum gegn ríkisborgurum þessa landa. Í ágúst samþykkti öldungaráð Afganistan að sleppa síðustu föngunum og Talibanar frelsuðu 24 sérsveitarmenn og flugmenn að fyrra bragði.

Í samtali við blaðamann Reuters segja embættismenn í Afganistan að mönnunum hafi verið sleppt á mánudaginn og þriðjudaginn. Á sama tíma hafi Talibanar sleppt sex sérsveitarmönnum sem voru í haldi þeirra.

Nú eru einungis 200 Talibanar eftir af þeim fimm þúsund sem krafist var að yrði sleppt. Heimildarmenn Reuters segja að fangaskiptunum gæti lokið í dag. Friðarviðræður ættu þá að geta hafist fljótt í Katar.

Talibanar voru hrakktir frá völdum í innrás Bandaríkjanna árið 2001. Þá hafði ríkisstjórn Talibana stutt al-Qaeda í árásunum á Tvíburaturnanna í New York. Síðan þá hefur þeim þó vaxið ásmegin og stjórna þeir nú meira landsvæði en nokkurn tímann áður í kjölfar innrásarinnar.


Tengdar fréttir

Fyrsta leikstýra Afganistan skotin

Saba Sahar, leikkona og fyrsta leikstýra Afganistan, var skotin í dag. Hún var flutt á sjúkrahús eftir að þrír menn hófu skothríð á bíl hennar þegar hún var á leið í vinnu.

Af­gönsk yfir­völd leysa 900 Talí­bana úr haldi

Afgönsk yfirvöld tilkynntu í dag að þau hyggðust leysa 900 vígamenn Talíbana úr haldi og báðu hryðjuverkahópinn jafnframt að framlengja þriggja daga vopnahlé sem á að enda á þriðjudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×