Enski boltinn

Hættir eftir sjötíu ár hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ken Friar var á Wembley þegar Arsenal tryggði sér enska bikarinn í byrjun ágúst. Arsenal vann sjö Englandsmeistaratitla og enska bikarinn ellefu sinnum á starfaldri sínum hjá Arsenal.
Ken Friar var á Wembley þegar Arsenal tryggði sér enska bikarinn í byrjun ágúst. Arsenal vann sjö Englandsmeistaratitla og enska bikarinn ellefu sinnum á starfaldri sínum hjá Arsenal. Getty/Stuart MacFarlane/

Það hefur margt breyst í heiminum á sjö áratugum en einum starfsmanni hjá Arsenal tókst þó að vera hjá félaginu í allan þennan tíma.

Ken Friar hefur nú sagt sig úr stjórninni hjá Arsenal en hann hefur verið sjötíu ár hjá félaginu.

Ken Friar er nú 86 ára gamall en hann kom fyrst til Arsenal árið 1950.

Þegar Friar byrjaði að vinna hjá Arsenal þá var sem dæmi hinn fimmtán ára gamli Elvis Presley nýfluttur til Memphis og rétt að byrja að læra á gítarinn.

Friar byrjaði að vinna í miðasölunni en vann sig upp og varð síðar framkvæmdastjóri. Hann kom mikið að því þegar Arsemal flutti sig frá Highbury yfir á Emirates Stadium.

„Samfélagið, fótboltinn og félagið hafa breyst gríðarlega á þessum árum en Arsenal hefur verið stöðugt afl,“ sagði Ken Friar í viðtali við heimasíðu Arsenal.

„Við höfum unnið og tapað mörgum fótboltaleikjum á þessum tíma en við höfum á sama tíma áttað okkur á því hversu mikilvægu hlutverki við sinnum í okkar samfélagi og enn víðar. Ég veit að menn munu halda því áfram,“ sagði Ken Friar.

„Ég tók þess ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum og áður en faraldurinn mætti á svæðið. Félagið er í góðum höndum hjá Stan og Josh Kroenke sem og stjórninni og starfsfólkinu,“ sagði Ken Friar.

Ken Friar var heiðraður við þessu tímamót með því að verða heiðursforseti hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×