Enski boltinn

Man City vill Koulibaly en neitar að tala beint við Napoli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Verður Kalidou Koulibaly leikmaður Manchester City eða hvað?
Verður Kalidou Koulibaly leikmaður Manchester City eða hvað? vísir/getty

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City er í óðaönn að púsla saman leikmannahópi sínum fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni. City vill endurheimta titilinn sem þeir unnu tvö ár í röð áður en Liverpool voru krýndir Englandsmeistarar nú í sumar.

Pep Guardiola, þjálfari City, vill bólstra varnarlínu sína – ekki í fyrsta skipti – og er miðvörðurinn Kalidou Koulibaly er næstur á innkaupalistnaum. Koulibaly er sem stendur leikmaður Napoli á Ítalíu og þar með vandast málin.

Samkvæmt Aurelio de Laurentiis, eiganda Napoli, neitar Man City að ræða beint við félagið um möguleg kaup á miðverðinum öfluga. Ástæðan er sú að City taldi sig hafa náð samkomulagi við ítalsak félagið um kaup á miðjumanninum Jorginho árið 2018 en á endanum varð ekkert af þeim vistaskiptum. Fór Jorginho á endanum til Chelsea.

Laurentiis gaf þó ekki út hvernig City ætlaði sér að kaupa leikmanninn en eflaust fara viðræður í gegnum umboðsmann hans eða þriðja aðila á vegum City. Eigandinn sendir City svo tóninn og segir að áhugi þeirra á Koulibaly geti ekki verið það mikill þar sem þeir vilja ekki ræða beint við ítalska félagið um kaup á honum.

Þó svo að City hafi nú þegar fjárfest í miðverðinum Nathan Aké þá er talið að félagið vilji allavega kaupa einn til viðbótar. Sérstaklega þar sem hinn ungi Eric Garcia er orðaður við vuð uppeldisfélag sitt Barcelona.

Sky Sports greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×