Enski boltinn

Klopp tilbúinn að selja tíu leikmenn Liverpool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp vill selja þessa þrjá leikmenn.
Klopp vill selja þessa þrjá leikmenn. Goal/Getty

Talið er að Englandsmeistarar Liverpool séu tilbúnir að selja alls tíu leikmenn áður en félagaskiptaglugginn lokar þann 5. október næstkomandi.

Jürgen Klopp, þjálfari liðsins, vill hrista aðeins upp í leikmannahópnum og losa þá leikmenn sem hann sér ekki fram á að nota mikið á komandi tímabili. Íþróttavefurinn Goal greindi frá.

Meðal leikmanna sem Liverpool vill selja er þýski markvörðurinn Loris Karius en hann er á of háum launum til að sitja á varamannabekknum. Þá er Harry Wilson, sem lék með Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð einnig kominn á sölulistann.

Klopp hefur ekki not fyrir þennan 23 ára gamla leikmann og Liverpool telur hvorki sig né leikmanninn græða neitt á að fara aftur á lán. Því verður hann að öllum líkindum seldur á næstu vikum.

Aðrir leikmenn sem mega fara eru Nat Phillps, Sheyi Ojo, Taiwo Awoniyi, Kamil Grabara, Marko Grujic og Yasser Larouci. Þeir Adam Lewis og Morgan Boyes hafa nú þegar verið sendir á lán.

Ekkert er minnst á Xherdan Shaqiri í greininni en hann hefur ekki átt upp á pallborðið undanfarið hjá Klopp. Talið er að þessi 28 ára gamli landsliðsmaður Sviss sé á förum frá félaginu í leit að meiri spiltíma.

Að lokum hefur Klopp ekki tekið ákvörðun varðandi Rhian Brewster, ungstirnið sem var á láni hjá Swansea City á síðustu leiktíð. Sex lið í ensku úrvalsdeildinni hafa áhuga á að fá hann á láni en Liverpool gæti ákveðið að nýta krafta hans í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×