Sport

Fær 1,7 milljónir á viku fyrir að vera á bakvakt hjá NFL-liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Josh McCown verður að vera klár í að hoppa upp í flugvél til Philadelphia.
 Josh McCown verður að vera klár í að hoppa upp í flugvél til Philadelphia. Getty/Quinn Harris

Reynsluboltinn Josh McCown er kominn í nýtt hlutverk í NFL-deildinni en hann er búinn að semja við eitt lið deildarinnar á óvenjulegan hátt.

Philadelphia Eagles hefur nefnilega gert samning við þennan 41 árs gamla leikstjórnanda um að hann verði á bakvakt á þessu NFL-tímabili sem hefst á fimmtudaginn kemur.

Það er mikil óvissa uppi í NFL-deildinni vegna kórónuveirunnar og leikmenn geta nú dottið út með engum fyrirvara.

Philadelphia Eagles vill hafa varann á og býr að því að Josh McCown var hjá félaginu í fyrra og þekkir því vel til sóknarskipulags liðsins.

Það sem gerir þetta mjög sérstakt er að Josh McCown býr ekki í Philadelphia heldur í Texas sem er í meira en þriggja klukkutíma flugferð í burtu. Hann verður því ekki í kringum liðið nema að það komi útkall.

Philadelphia Eagles ætlar að leyfa honum að búa áfram í Texas en það verður fylgst vel með því að hann haldi sér í góðu formi. Josh McCown verður því til taks ef leikstjórnendur Eagles detta skyndilega út vegna COVID-19 smits.

Josh McCown verður samt sem áður elsti leikmaðurinn sem fær samning til að vera hluti af æfingaliði NFL-liðs.

McCown spilaði þrjá leiki með Philadelphia Eagles í fyrra og var í byrjunarliði New York Jets fyrir tveimur tímabilum síðan. Hann er mjög víðförull og hefur mikla reynslu að því að koma sér inn í hlutina hjá nýjum liðum.

Á ferlinum hefur McCown farið frá Arizona til Detroit til Oakland til Miami til Carolina til Hartford Colonials í United Football League til San Francisco til Chicago til Tampa Bay til Cleveland og loks til New York Jets.

Philadelphia Eagles þarf líka að borga fyrir þessa þjónustu því Josh McCown mun fá 12 þúsund Bandaríkjadali á viku eða 1,7 milljónir íslenskra króna. Það er ekki slæmt kaup.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×