Enski boltinn

Mourinho vildi ekki tjá sig neitt um komu Bale sem flýgur til London í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane vill ekki nota Gareth Bale hjá Real Madrid.
Zinedine Zidane vill ekki nota Gareth Bale hjá Real Madrid. Getty/Diego Souto

Gareth Bale er sagður fljúga til London í dag til að ganga frá endurkomu sinni til Tottenham Hotspur. Félögin eru þó enn að ganga frá lausum endum.

Tottenham mun fá Gareth Bale á láni en félögin eru enn að ganga frá því hvað Tottenham þarf að borga mikið af stjarnfræðilegum launum hans sem eru sögð vera 600 þúsund pund á viku eða 106 milljónir í hverri viku.

Það eru sjö ár síðan að Tottenham seldi Gareth Bale til Real Madrid fyrir heimsmetsupphæð. Nú sjö árum síðar gæti Bale orðið nauðsynleg vítamínssprauta fyrir lærisveina Jose Mourinho. Portúgalski stjórinn er þó ekki tilbúinn að ræða Gareth Bale fyrr en allt er klárt.

„Þangað til að einhver segir mér að Gareth Bale sé orðinn leikmaður Tottenham þá tel ég svo vera að ég þurfi að virða það að hann er leikmaður Real Madrid. Ég ætla ekki að tjá mig um leikmann hjá Real Madrid,“ sagði Jose Mourinho eftir sigurleik Tottenham á búlgarska félaginu Lokomotiv Plovdiv í forkeppni Evrópudeildarinnar í gær.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir frá væntanlegri flugferð Gareth Bale til London í dag og þeirri staðreynd að hann hafi æft einn í gær en ekki með liðsfélögum sínum í Real Madrid.

Það er einnig búist við því að Tottenham gangi líka í dag frá kaupum á bakverðinum Sergio Reguilon frá Real Madrid. Þessi 23 ára gamli spænski landsliðsmaður var á láni hjá Sevilla á síðustu leiktíð og vann þá Evrópudeildina.

Jonathan Barnett, umboðsmaður Gareth Bale, sagði blaðamanni BBC að Bale hafi aldrei verið eins nálægt því að yfirgefa Real Madrid og nú á þessum sjö árum sínum hjá félaginu.

Real Madrid keypti Bale fyrir 85 milljónir punda árið 2013 og hann hefur skorað meira en hundrað mörk fyrir félagið. Bale hefur einnig unnið Meistaradeildina fjórum sinnum.

Jose Mourinho sagðist hafa reynt að fá Bale til Real Madrid á sínum tíma en hann kom ekki fyrr en Mourinho var hættur þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×