Enski boltinn

Sumir Liverpool stuðningsmenn urðu sér til skammar á netinu eftir 7-2 sigur í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neco Williams með Englandsbikarinn sem hann vann með Liverpool á síðustu leiktíð.
Neco Williams með Englandsbikarinn sem hann vann með Liverpool á síðustu leiktíð. Getty/John Powell/

Liverpool nettröllin fóru svo illa með nítján ára strák í Liverpool liðinu í gærkvöldi sem endaði með að hann lokaði öllum samfélagsmiðlum sínum.

Það var ekki yfir miklu að kvarta eftir 7-2 sigur Liverpool á Lincoln í enska deildabikarnum en nettröllin í Liverpool stuðningsmannahópnum ákváðu engu að síður að finna sér skotspón.

Það var hinn nítján ára gamli hægri bakvörður Neco Williams sem fékk að finna fyrir því á netinu.

Neco Williams fékk tækifærið í leiknum í gær en hann er í samkeppni við hinn frábæra Trent Alexander-Arnold og fær því ekki marga leiki.

Neco Williams átti frábæra innkomu í velska landsliðið í Þjóðadeildinni á dögunum og skoraði þá sigurmark á móti Búlgaríu í sínum öðrum landsleik.

Það hafa margir Liverpool stuðningsmenn hneykslast á framgöngu nettröllanna og segja að þarna séu ekki sannir stuðningsmenn á ferðinni.

Neco Williams gerði vissulega mistök í fyrra marki Lincoln þegar hann tapaði boltanum en Liverpool vann leikinn með fimm marka mun. Strákurinn er bara nítján ára og ekki með marga leiki á bakinu.

Give Me Sport sagði frá meðferðinni á Neco Williams en ákvað að birta ekki óhróðurinn heldur frekar þann stuðning sem Neco Williams fékk frá öðrum stuðningsmönnum Liverpool í kjölfarið.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×