Erlent

Setja her­lög bæði í Armeníu og Aserbaídsjan

Atli Ísleifsson skrifar
Alls hafa nú 31 maður fallið í átökum síðustu daga.
Alls hafa nú 31 maður fallið í átökum síðustu daga. AP

Átök armenskra og aserskra hersveita á landamærunum héldu áfram í nótt. 23 manns hið minnsta féllu í átökunum í gær og hafa herlög tekið gildi í báðum ríkjum. Alls hafa nú 31 maður fallið í átökum síðustu daga.

Deilur ríkjanna snúa að héraðinu Nagorno-Karabakh og hefa staðið allt frá því að ríkin lýstu yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum snemma á tíunda áratugnum. Í héraðinu, sem er að finna innan landamæra Aserbaídsjan, eru Armenar í meirihluta og ráða þar ríkjum. Tugir þúsunda hafa fallið í átökum um héraðið síðustu áratugi.

Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjans, sagðist í gær vera bjartsýnn á að ná stjórn á héraðinu. Herlög hafa nú verið sett í hluta Aserbaídsjan, auk Armeníu og Nagorno-Karabakh.

Átökin milli ríkjanna nú eru þau hörðustu í langan tíma, en í júlí síðastliðinn féllu sextán manns sem leiddi til fjölmennra mótmæla í asersku höfuðborginni Baku þar sem þess var krafist að héraðið yrði hertekið.

Vopnahléi verði komið á

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur lýst yfir stuðningi við Asera, en Tyrkir og Aserar eru nánir bandamenn. Rússlandsstjórn hefur krafist þess að samið verði um vopnahlé tafarlaust, en Rússar hafa jafnan verið á bandi Armena í átökunum við Asera.

DW segir frá því að ásakanir milli ríkjanna hafi gengið víxl. Er haft eftir talsmanni armenska varnarmálaráðuneytisins að átökin hafi haldið áfram í morgun þar sem Aserar hafi beitt þungavopnum. Varnarmálaráðuneyti Aserbaídsjans segir armenskar hersveitir hafa ráðist á bæinn Terter.

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, hefur tilkynnt um liðssöfnun hersins, að Armenar séu reiðubúnir undir stríð og að ekki verði tomma gefin eftir.


Tengdar fréttir

Mannfall í hernaðarátökum Asera og Armena

Bæði Aserar og Armenar segjast hafa orðið fyrir mannfalli í skærum ríkjanna um Nagorno-Karabakh, umdeilt og landlukt svæði innan Aserbaídsjan. Átökin eru sögð þau hörðustu frá því að sextán manns féllu í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×