Íslenski boltinn

Fyrsti sigur Fylkis í Frostaskjólinu í ellefu ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkir vann langþráðan sigur á Meistaravöllum í gær.
Fylkir vann langþráðan sigur á Meistaravöllum í gær. vísir/vilhelm

Sigur Fylkis á KR á Meistaravöllum í gær, 1-2, var fyrsti sigur Árbæinga í Vesturbænum í efstu deild í ellefu ár, eða síðan 17. ágúst 2009.

Þá vann Fylkir 2-4 sigur á Meistaravöllum. Það var eina tap KR í seinni umferð Pepsi-deildarinnar 2009. Óskar Örn Hauksson, sem skoraði mark KR í gær, kom inn á sem varamaður í þeim leik. Ólafur Stígsson, þjálfari Fylkis, og Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR, léku allan leikinn.

Klippa: KR 2-4 Fylkir 2009

KR vann næstu sjö deildarleikina gegn Fylki á Meistaravöllum með markatölunni 18-4. KR felldi m.a. Fylki með því að vinna þá í lokaumferðinni 2016. Síðan Fylkismenn komust aftur upp í Pepsi Max-deildina hafa þar ekki tapað fyrir KR-ingum á Meistaravöllum. 

Liðin gerðu 1-1 jafntefli 2018 og 2019 og Fylkir vann svo í gær á mjög dramatískan hátt. Sam Hewson skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu sem dæmd var á Beiti Ólafsson, markvörð KR, fyrir að slæma hendi til Ólafs Inga Skúlasonar. KR-ingar voru langt frá því að vera sáttir og eftir leikinn sakaði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, Ólaf Inga um leikaraskap.

Sigurinn í gær var janframt fyrsti sigur Fylkis á KR í átta ár, eða síðan Fylkismenn sigruðu KR-inga, 3-2, í Árbænum 23. september 2012.

KR hefur haft gott tak tap á Fylki í mörg ár. Frá 2006 hafa liðin mæst 28 sinnum í efstu deild, KR unnið 20 leiki, fimm sinnum hefur orðið jafntefli og Fylkir aðeins unnið þrjá leiki.

Með sigrinum í gær komst Fylkir upp í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar. Árbæingar eru með 28 stig og eiga góða möguleika á að ná Evrópusæti í fyrsta sinn síðan 2009.


Tengdar fréttir

Rýndu í rauða spjaldið sem Beitir fékk og gerði Rúnar foxillan

„Þegar lið vinna á þennan hátt þá er það bara svindl og svínarí,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um lokin á leiknum við Fylki í gær. Kjartan Atli Kjartansson og Hjörvar Hafliðason rýndu í það sem þar gerðist í Pepsi Max tilþrifunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×