Flutningabíll þverar nú Vesturlandsveg, norðan við Grundartanga en sunnan Akrafjallsvegar, eftir að hafa oltið í morgun.
Á vef Vegagerðarinnar segir að allri umferð um þjóðveg 1 sé því beint út fyrir Akrafjall um veg 51 meðan leyst verður úr málum með flutningabílinn.

Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi, segir í samtali við Vísi að ekki hafi verið um árekstur að ræða. Sömuleiðis hafi ekki borist fréttir um slys á fólki.
Unnið er að hreinsun á staðnum, þar sem einhver olía á að hafa lekið úr bílnum.
Útkallið barst slökkviliði klukkan 10:32.