Skipuleggjendur kappræðnanna fyrir bandarísku forsetakosningarnar hafa heitið því að breyta skipulagi þeirra svo koma megi í veg fyrir stöðug frammígrip, líkt og gerðist ótt og títt í fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar í nótt. Reuters greinir frá.
Frá fyrstu mínútu einkenndust kappræðurnar í nótt af óreiðu, framígripum og deilum. Donald Trump greip ítrekað fram í fyrir mótframbjóðanda sínum, Joe Biden og stjórnandanum Chris Wallace.
Snemma í kappræðunum virtist Biden vera orðinn þreyttur á þessum framígripum, og sagði hann Trump meðal annars að þegja.
Í frétt Reuters segir að skipuleggjendur muni fínstilla reglurnar fyrir næstu kappræður sem fram fara í Miami í Flórída þann 15. október, með það að markmiði að kappræðurnar verði „hófstilltari“.
Því hefur meðal annars verið velt up að skipuleggjendur muni mögulega leggja til að stjórnandinn geti slökkt á hljóðnema þess frambjóðanda sem grípi stöðugt fram í. Biden sjálfur stakk meðal annars upp á því eftir kappræðurnar. Í frétt AP um málið segir að það sé einmitt á meðal þess sem skipuleggjendur séu að skoða.
Ekkert liggur þó fyrir um það hvernig skipuleggjendurnir hyggjast ná fram markmiðum sínum um hófstilltari kappræður.