Innlent

Heilbrigðiskerfið kostar 753.315 krónur á mann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikið hefur mætt á heilbrigðiskerfinu í kórónuveirufaraldrinum og eru heilbrigðismál langstærsti einstaka útgjaldaliður ríkissjóðs.
Mikið hefur mætt á heilbrigðiskerfinu í kórónuveirufaraldrinum og eru heilbrigðismál langstærsti einstaka útgjaldaliður ríkissjóðs. Þorkell Þorkelsson/Landspítali háskólasjúkrahús

Heilbrigðiskerfið mun kosta 753.315 krónur á mann á næsta ári og er það 23.789 krónum meira en ráð var gert fyrir að heilbrigðiskerfið myndi kosta á mann í fjárlagafrumvarpi ársins 2020.

Þetta kemur fram í kynningarefni sem fylgir fjárlagafrumvarpi næsta árs og birt er á vef fjármálaráðuneytisins.

Það var nýlunda í fyrra að birta útgjöld á mann eftir völdum málaflokkum og er það gert aftur nú.

Langmest fer í heilbrigðismál en þar á eftir koma útgjöld til málefna aldraðra sem nema 249.963 krónum á mann.

Útgjöld vegna örorkugreiðslna í almannatryggingakerfinu eru 203.571 króna á mann og samgöngurnar kosta 154.361 krónu á mann.

Heildarútgjöld til háskóla landsins nema svo 140.490 krónum á mann, útgjöld til fjölskyldumála eru 125.667 krónur á mann og til framhaldsskólanna 103.081 króna á mann.

Útgjöld vegna annarra málaflokka sem tilteknir eru nema minna en 100 þúsund krónum á mann en útreikningana ráðuneytisins má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Allt það helsta um fjárlagafrumvarpið 2021 má finna í Vaktinni á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×