Innlent

Hafa glímt við í­trekaðar lis­teríu­sýkingar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Bíldudal á Vestfjörðum.
Frá Bíldudal á Vestfjörðum. Vísir/Vilhelm

Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hefur glímt við ítrekaðar listeríusýkingar í vinnslustöð fyrirtækisins á Bíldudal. Forstjórinn segir málið ekki hafa umtalsverð áhrif á starfsemina.

Fréttablaðið greinir frá þessu í morgun. Segir að Matvælastofnun hafi síðustu mánuði borist nokkur fjöldi tilkynninga frá Arnarlax sem jafnframt hafi gripið til aðgerða vegna málsins.

Björn Hem­bre, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Fréttablaðið að unnið sé kerfisbundið að því alla daga að vinna bug á listeríunni. Jafnframt er haft eftir Dóru S. Gunnars­dóttur, svið­stjóra neyt­enda­verndar og fisk­eldis hjá Matvæla­stofnun, að listerían geti valið sýkingum og sé hættuleg fyrir viðkvæma neytendur. Bakterían fjölgi sér helst í reyktum og gröfnum laxi á geymslutímanum í kæli, en ekki í ferskum laxi.

Á vef Matvælastofnunar segir að listería sé mjög útbreidd í náttúrunni og finnist í jarðvegi, plöntum, skólpi og þörmum bæði manna og dýra. Vegna gífurlegrar útbreiðslu bakteríunnar þá sé erfitt að koma í veg fyrir mengun af hennar völdum í unnum matvörum.

Arnarlax var stofnað 2009 og er í dag stærsta fiskeldisfyrirtæki á Íslandi með á annað hundrað starfsmenn á Bíldudal, Hafnarfirði, Þorlákshöfn og Bolungarvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×