Erlent

Blaðafulltrúi Hvíta hússins bætist í hóp smitaðra

Kjartan Kjartansson skrifar
McEnany ræddi grímulaus við blaðamenn við Hvíta húsið í gær. Hún er nú smituð af veirunni.
McEnany ræddi grímulaus við blaðamenn við Hvíta húsið í gær. Hún er nú smituð af veirunni. AP/Jacquelyn Martin

Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, er smituð af kórónuveirunni og bætist í stækkandi hóp starfsmanna Hvíta hússins sem er nú í sóttkví. McEnany hefur rætt grímulaus við blaðamenn undanfarna daga eftir að Donald Trump forseti greindist smitaður seint á fimmtudagskvöld.

Í yfirlýsingu sem McEnany sendi frá sér í dag sagðist hún ekki finna fyrir neinum einkennum. Hún væri farin í sóttkví en ætlaði sér að halda áfram að vinna.

Eftir að Trump greindist frá því að hann og eiginkona hans væru smituð af veirunni aðfaranótt föstudags hefur fjöldi starfsmanna Hvíta hússins og fleiri repúblikana greinst smitaður. Margir þeirra áttu það sameiginlegt að hafa verið á viðburði í Hvíta húsinu til að fagna Amy Coney Barret, hæstaréttardómaraefni Trump, á laugardag fyrir rúmri viku.

McEnany hélt áfram að stýra blaðamannafundum í Hvíta húsinu eftir að smitin byrjuðu að greinast á meðal starfsmanna þar. AP-fréttastofan hefur eftir McEnany að enginn blaðamannanna hafi verið nógu lengi nálægt henni til að teljast útsettur fyrir smiti.

Að minnsta kosti þrír blaðamenn hafa greinst smitaðir af veirunni síðustu daga. Washington Post hefur eftir Michael Shear, blaðamanni New York Times, að enginn frá Hvíta húsinu hafi sett sig í samband við hann um smitrakningu.

Fréttir af heilsu Trump sjálfs hafa verið misvísandi um helgina. Honum var gefið súrefni og sterar þrátt fyrir að læknar hans hafi reynt að draga upp bjartsýna mynd af stöðunni á laugardag og sunnudag. Þeir sögðu í gær að forsetinn yrði mögulega útskrifaður af Walter Reed-sjúkrahúsinu þar sem hann hefur dvalið frá því á föstudag í dag.

Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, sagði Fox-sjónvarpsstöðinni í morgun að forsetinn væri á batavegi og tilbúinn að hefja störf að nýju.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Leyni­þjónustan ó­sátt við að Trump stefndi heilsu líf­varða í hættu

Ákvörðun Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að láta tvo lífverði frá leyniþjónustunni aka með sig fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann dvelur til að hann gæti heilsað stuðningsmönnum sínum þrátt fyrir að hann sé smitaður af kórónuveirunni hefur vakið furðu og fordæmingu leyniþjónustunnar og lækna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×