Innlent

Sundlaugum verði lokað á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Laugardalslaug
Laugardalslaug Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til við heilbrigðisráðherra að sundlaugum verði lokað á höfuðborgarsvæðinu næstu vikur á meðan verið sé að ná tökum á kórónuveirufaraldurinn hér á landi. Hann leggur þó ekki til jafn harðar aðgerðir í heilbrigðisþjónustu og gert var í mars þegar fyrsta bylgjan stóð sem hæst.

Framkvæmdaráð almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins hefur þegar ákveðið að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu á morgun, miðvikudaginn 7. október. Lokunin á einnig við um skólasund, að því er segir í tilkynningu. Næstu skref varðandi afgreiðslutíma sundlauga miðast við væntanlega auglýsingu heilbrigðisráðherra um hertar veiruaðgerðir.

Þórólfur ræddi tillögur sínar varðandi höfuðborgarsvæðið lauslega í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann vildi ekki fara í smátriðum í tillögur sínar sem var í þann mund að senda Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til skoðunar.

„Menn geta horft á þær tillögur sem voru í gangi í mars þegar starfsemi var trufluð,“ sagði Þórólfur. Hann sagði þó að hann legði til að sundlaugum yrði lokað á höfuðborgarsvæðinu.

Líkamsræktarstöðvum hefur verið gert að loka tækjasölum sínum með reglugerð fyrir allt landið sem tók gildi á mánudag. Sundlaugar máttu hafa opið en með fjöldatakmörkunum þó. 

„Við erum ekki eins agressív gagnvart heilbrigðisþjónustu,“ sagði Þórólfur. Ýmis heilbrigðisþjónusta á borð við tannlæknaþjónustu og sjúkraþjálfun var lokað þegar verst var í mars.

Þórólfur segist reikna með því að ráðherra bregðist hratt og örugglega við tillögunum. Hann sé sjálfur ekki með tímaramma á þeim en reikna megi með tveimur til þremur vikum eins og hingað til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×