Körfubolti

KKÍ bíður eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hannes Jónsson, er formaður KKÍ.
Hannes Jónsson, er formaður KKÍ. mynd/daníel

Körfuknattleikssamband Íslands tók ekki neina ákvörðun á fjarfundi sínum í dag varðandi mótahald.

Fyrr í dag bárust fréttir af því að líklega yrðu allar íþróttir settar á ís næstu tvær vikurnar eftir bylgju af smitum á höfuðborgarsvæðinu vegna kórónuveirunnar.

Í kvöld fer m.a. fram leikur Þórs og Keflavíkur í Domino's deild karla og fer sá leikur fram þrátt fyrir að Þórsarar vildu fresta leiknum.

Eins og segir í yfirlýsingunni verður fylgst með ákvörðunum stjórnvalda og auglýsingu heilbrigðisráðherra áður en tekin verður ákvörðun með framhaldið.

Yfirlýsing KKÍ:

Óformlegar fregnir bárust af því fyrri hluta dags í dag um hertar aðgerðir yfirvalda í baráttunni gegn COVID-19 og þeirri smitbylgju sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Vegna þess hittust stjórn KKÍ og mótanefnd á fjarfundi kl. 16:00 í dag. Engin ákvörðun var tekin á fundinum önnur en að bíða eftir auglýsingu heilbrigðisráðherra. Vert er að geta að engar formlegar upplýsingar hafa borist frá yfirvöldum til íþróttahreyfingarinnar, þrátt fyrir að eftir því hafi verið kallað í dag og því ekki hægt að ákveða næstu skref varðandi mótahald KKÍ.

Stjórn og mótanefnd munu funda aftur í fyrramálið, en vonandi liggur reglugerð heilbrigðisráðherra þá fyrir svo hægt verði að taka ákvarðanir um næstu skref.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×