Innlent

Um­mæli bæjar­stjóra um hlýðna Akur­eyringa vekja undrun og furðu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar. Akureyrarbær

Netverjar hafa margir furðað sig á ummælum sem Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, lét falla í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld, og sumir sagt þau merki um yfirlæti. Ásthildur kveðst í Facebook-færslu í kvöld harma það að hafa stuðað fólk með ummælum sínum.

Hertar kórónuveiruaðgerðir fyrir höfuðborgarsvæðið taka gildi á morgun. Þá hefur landsmönnum öllum verið ráðið frá því að ferðast til og frá höfuðborginni næstu vikur. 

Ásthildur sagði í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hún óttaðist ekki að höfuðborgarbúar flykkist út á land þegar aðgerðir verða hertar. Þá sagði hún að ein ástæðan fyrir því að ekki væru jafnmörg smit í bænum og raun ber vitni væri sú að Akureyringar fylgi reglum.

„Það er ástæða fyrir því að hér er lítið um smit. Fólk fer mjög varlega. Akureyringar fylgja reglum. Og það er ástæða fyrir því að faraldurinn hefur ekki leikið okkur verr en hann hefur gert hingað til,“ sagði Ásthildur.

Þessi ummæli bæjarstjórans hafa vakið undrun og furðu margra netverja. Sumir telja orð hennar merki um hroka og aðrir segja Akureyringa alls ekki betri en aðra í því að fylgja reglum, líkt og Ásthildur virðist hafa gefið í skyn.

„Akureyringar eru sko bestir...í að verða ekki lasnir. Langbestir,“ skrifar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, á Twitter-reikning sínum í kvöld.

Rakel Lúðvíksdóttir kveðst ekki þola svona „yfirlæti“ og þá bendir Tinna Haraldsdóttir á að það minni sveitarfélög eigi auðveldara með að standa sig vel með tilliti til sóttvarna en þau stærri.

Ásthildur segir sjálf í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld að sér þyki leitt að hafa stuðað fólk með ummælum sínum. Hún hafi alls ekki verið að halda því fram að íbúar annarra landshluta fylgi reglum síður en Akureyringar, þó að trú hennar á þeim síðarnefndu sé óbilandi. Færslu Ásthildar má sjá  hér fyrir neðan.

Fleiri tíst vegna ummæla Ásthildar má sjá hér fyrir neðan.

Akureyringar lýstu margir yfir óánægju með það að hertar veiruaðgerðir sem boðaðar voru um helgina og tóku gildi í dag skyldu vera látnar yfir alla ganga, ekki aðeins höfuðborgarsvæðið. Tryggvi Kristjánsson eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Bjargs á Akureyri furðaði sig til að mynda á þessu í færslu á Facebook á laugardag. 

Samkvæmt tölum á Covid.is eru 747 í einangrun vegna Covid-19 á landinu öllu, þar af 640 á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins þrír eru í einangrun á Norðurlandi eystra.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbrögðum Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×