Stjórnendur Air Iceland Connect hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja næsta vor. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá fundi ráðsins, sem hófst síðdegis og lauk um kvöldmatarleytið. Bæjarmiðlarnir Eyjar.net, Tígull og Eyjafréttir greina allir frá málinu í kvöld.
Fram kemur að Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri og Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs, hafi undanfarna daga átt í samskiptum við fulltrúa Isavia vegna uppsagna starfsmanna félagsins á Vestmannaeyjaflugvelli. Starfsmönnunum var sagt upp eftir að Flugfélagið Ernir ákvað að hætta áætlunarflugi til Eyja um mánaðamótin ágúst-september.
„Gott samtal hefur átt sér stað milli aðila og í kjölfarið hefur Isavia ákveðið að draga boðaðar uppsagnir starfsmanna sinna til baka og fresta ákvörðun um breytt starfsmannahald á vellinum til næsta vors,“ segir í fundargerðinni.
Ennfremur er greint frá viðræðum bæjarstjóra við fulltrúa flugfélaganna undanfarinn mánuð, meðal annars Air Iceland Connect um mögulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum.

„Stjórnendur Air Iceland Connect líta á Vestmannaeyjar sem spennandi viðbót við áfangastaði þeirra og hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor. Í þessu felast mikil tækifæri til kynningar á Vestmannaeyjum sem áfangastað, bæði fyrir innlendum sem og erlendum ferðamönnum. Einnig skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyinga að áætlunarflug hefjist aftur,“ segir í fundargerðinni.
„Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og fagnar fréttum um að Air Iceland Connect ætli að hefja flugsamgöngur til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum næsta vor. Bæjarráð lýsir jafnframt ánægju með að Isavia hafi nú ákveðið að draga til baka uppsagnir á flugvellinum í Vestmannaeyjum.“