Sport

Stöðva allt íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik - Fylkir Pepsí max deild ksí íslandsmót karla, sumar 2020 / ljósmynd Hulda Margrét
Breiðablik - Fylkir Pepsí max deild ksí íslandsmót karla, sumar 2020 / ljósmynd Hulda Margrét Foto: Hulda Margrét Óladóttir

Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu ættu að gera hlé á öllum æfingum og keppni til og með 19. október samkvæmt tilmælum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

ÍSÍ hefur sent þessi tilmæli á sín sérsambönd. Íþróttafélögum utan höfuðborgarsvæðisins er áfram heimilt að æfa, og keppa, en ljóst er að til að lið geti keppt þyrftu auk þess dómarar að koma frá sveitarfélagi utan höfuðborgarsvæðisins.

Sérsambönd ÍSÍ hafa flest ef ekki öll þegar frestað leikjum næstu 1-2 vikurnar en hin ítrekuðu tilmæli fela í sér að æfingum á höfuðborgarsvæðinu skuli einnig frestað.

„Við hvetjum íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu til að gera hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum og fyrir alla aldurshópa. Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Vísi að sér vitanlega þýddi þetta þó ekki að fresta yrði neinum af komandi landsleikjum. A-landslið karla í fótbolta mætir Rúmeníu í kvöld, Danmörku á sunnudag og Belgíu næsta miðvikudag, og U21-landsliðið tekur á móti Ítalíu á morgun.

Ekkert sund og íþróttir í skólum utandyra

Í tilkynningu frá almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins segir svo að íþróttakennsla innandyra og sundkennsla verði stöðvuð. Það hafi verið ákveðið í samráði við skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og ákvörðunin gildi til 19. október. Öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×