Innlent

Veiran les ekki minnisblöð eða reglugerðir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

„Veiran hún les ekki minnisblöð sóttvarnalæknis og hún les ekki reglugerð ráðuneytisins,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag þegar hann sagði að tilgangslaust væri að karpa um misræmi á milli minnisblaðs hans til ráðuneytis um þær aðgerðir sem grípa ætti til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar, og þeirrar reglugerðar sem leit dagsins ljós.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á fundinum þar sem hann vísaði í umræðu sem skapast hefur eftir að hann lagði til í minnisblaði til ráðherra að allri íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu væri frestað um tvær vikur. Í reglugerð heilbrigðisráðherra var þó vikið frá þessum tilmælum Þórólfs, og íþróttastarf utandyra heimilað með fjöldatakmörkunum að 50 einstaklingum og áhorfendum 20 manns.

„Mér finnst ástæðulaust að dvelja eitthvað sérstaklega við þetta misræmi í minnisblaði og reglugerð því að það er mikilvægast á þessari stundu að við leggjumst á öll á eitt við að minnka líkurnar á smiti en ekki dvelja við eitthvað misræmi á milli mín og ráðuneytis,“ sagði Þórólfur.

„Þannig vil ég hvetja alla til að haga sínum athöfnum til að líkur á smiti séu sem minnstar í stað þess að dvelja við hvað sé leyft í reglugerð og hvað sé ekki leyft. Veiran hún les ekki minnisblöð sóttvarnalæknis og hún les ekki reglugerð ráðuneytisins. Því vil ég áfram hvetja aðila hér á höfuðborgarsvæðinu til að fresta íþróttaiðkun eins og Víðir kom inn á áðan, hvort sem hún er skipulögð eða ekki, sem krefst þess að menn séu í nánum tengslum.“

Níutíu og fjórir greindust með kórónuveiruna innlands í gær. Fjörutíu þeirra voru í sóttkví. Þá greindust átta við landamærin. 35 nú á Landspítalanum með kórónuveiruna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×