Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Frá þessu greindi norska Nóbelsnefndin á fréttamannafundi sem hófst núna klukkan níu.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hlýtur verðlaunin fyrir baráttu sína gegn hungursneyð í heiminum og að bæta aðstæður og auka þar með líkur á friði á svæðum þar sem átök hafa geisað. Sömuleiðis hafi áætlunin verið drifkraftur í því að koma í veg fyrir að hungur sé notað sem vopn í átökum.
Á vef Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir að þriðjungur allrar neyðaraðstoðar með matvæli í heiminum komi frá Matvælaáætlun SÞ sem sé stærsta stofnun heims á sviði matvælaaðstoðar. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna var komið á laggirnar árið 1961 og eru höfuðstöðvar hennar að finna í Róm.
Alls voru 318 einstaklingar og 107 samtök tilnefnd til friðarverðlaunanna í ár.
BREAKING NEWS The need for international solidarity and multilateral cooperation is more conspicuous than ever. The...
Posted by Nobel Prize on Friday, 9 October 2020
Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu, hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári fyrir að stuðla að aukinni alþjóðlegri samvinnu og friði. Var þar sérstaklega vísað í baráttu hans til að binda enda á áralöng átök Eþíópíu og nágrannalandsins Eritreu.