Erlent

Sam­þykktu vopna­hlé í Na­gorno-Kara­bakh

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá vinstri: Azerbaijan's Foreign Minister Jeyhun Bayramov, utanríkisráðherra Aserbaídsjans, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Zohrab Mnatsakanyan, utanríkisráðherra Armeníu.
Frá vinstri: Azerbaijan's Foreign Minister Jeyhun Bayramov, utanríkisráðherra Aserbaídsjans, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Zohrab Mnatsakanyan, utanríkisráðherra Armeníu. Utanríkisráðuneyti Rússlands

Armenar og Aserar hafa samþykkt tímabundið vopnahlé í deilum sínum um Nagorno-Karabakh í Kákasusfjöllum. Þetta tilkynnti utanríkisráðherra Rússlands í nótt, eftir að fulltrúar ríkjanna höfðu fundað í um tíu klukkustundir í Moskvu. Vopnahléið hefur tekið gildi.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að ríkin tvö, Armenía og Aserbaídsjan, muni nú hefja efnislegar viðræður um frið á svæðinu.

Yfir 300 manns hafa látið lífið og þúsundir misst heimili sín í átökum sem hófust á svæðinu 27. september síðastliðinn. Armenar og Aserar hafa löngum deilt um svæðið og ofbeldi oft blossað upp í þeim deilum. Svæðið tilheyrir formlega Aserbaídsjan, en er stjórnað af armenskum aðskilnaðarsinnum.

Niðurstaða viðræðna ríkjanna tveggja er að frá og með hádegi að staðartíma í dag, klukkan átta að íslenskum tíma, verði vopnahlé milli stríðandi fylkinga. Þannig verði hægt að skiptast á föngum og fjarlægja lík þeirra sem fallið hafa í átökunum, sem ríkin hafa kennt hvort öðru um.

Ríkin tvö hafa lengi deilt um yfirráð á svæðinu. Árið 1994 var stillt til friðar með samkomulagi, en þó hafa átök blossað upp inn á milli síðan þá. Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa síðan þá haft frumkvæði að því að miðla málum milli ríkjanna.

Átökin nú hafa valdið áhyggjum af því að Tyrkir, sem standa við bakið á Aserbaídsjan, og Rússar, sem eru með varnarsáttmála við Armeníu, gætu dregist inn í þau.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×