Donald Trump segir að staðfesting lækna hans á því að hann smiti ekki lengur eftir kórónuveirusmit geri það að verkum að hann geti aftur farið á fullt í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í næsta mánuði. Hann segist vera ónæmur fyrir Covid-19.
Sean Conley, læknir Donalds Trump Bandaríkjaforseta, gaf í gær út minnisblað þar sem hann greinir frá því að hann telji forsetann ekki lengur eiga á hættu að smita aðra af kórónuveirunni. Hann þurfi því ekki lengur að sæta einangrun.
Minnisblaðið var gefið út eftir að forsetinn kom fram á svölum Hvíta hússins og hélt ræðu fyrir hóp stuðningsmanna sinna. Trump segist ætla að ferðast til Flórída á morgun, en það er eitt af lykilríkjum í kosningabaráttunni sem Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, leiðir ef marka má skoðanakannanir.
Þá stefnir hann á að halda fjöldafundi í Pennsylvaníu og Iowa í vikunni. Forsetinn dvaldi alls í þrjá daga á spítala eftir að hann greindist með veiruna og segir Trump að hann þurfi ekki lengur að taka inn lyf vegna smitsns.
„Það lítur út fyrir að ég sé ónæmur, kannski í langan tíma, kannski í stuttan tíma, kannski til æviloka. Enginn veit það í rauninni,“ sagði Trump í sjónvarpsviðtali á FOX News sjónvarpstöðinni í dag.