Erlent

Ósáttur við að hafa verið slitinn úr samhengi í auglýsingu Trumps

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dr. Anthony Fauci, er ósáttur við framboð Bandaríkjaforseta.
Dr. Anthony Fauci, er ósáttur við framboð Bandaríkjaforseta. AP/Kevin Dietsch

Anthony Fauci, yfirmaður Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna og einn helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna er ósáttur við að orð hans hafi verið notuð í auglýsingu fyrir framboð Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Hann segir þau hafa verið slitin úr samhengi og að hann hafi ekki samþykkt að taka þátt í henni.

Umrædd auglýsing var sett í loftið í síðustu viku og fjallar hún um aðgerðir ríkisstjórnar hans til þess að bregðast við kórónuveirufaraldrinum.

„Ég get ekki ímyndað mér að einhver gæti verið að gera meira,“ heyrist Fauci segja í auglýsingunni en um er að ræða hljóðbrot úr viðtali sem tekið var við hann í mars síðastliðnum, þar sem hann ræddi almennt um þær aðgerðir sem verið væri að ráðast, og virðist miðað við heildarsamhengi ummælanna aðallega hafa verið að tala um sjálfan sig, en CNN birtir ummælin í heild sinni.

Í yfirlýsingu sem Fauci sendi CNN vegna málsins segir hann að á þeim rúmlega fimm áratugum sem hann hafi starfað sem opinber starfsmaður hafi hann aldrei stutt tiltekin framboð eða stjórnmálamenn opinberlega. 

Segir hann ummælin sem framboð Trumps hafi nýtt sér hafi verið slitin úr samhengi þar sem hann hafi verið að ræða um heildarframlag opinberra starfsmanna gegn kórónuveirufaraldrinum. Þetta hafi verið gert að honum forspurðum og án þess að spyrja leyfis.

Framboð Trumps virðist þó vera nokkuð sama um að Fauci sé ósáttur og í svari við fyrirspurn CNN segir Tim Murtaugh, samskiptastjóri framboðsins að einfaldlega sé um að ræða eigin orð Fauci.

„Myndbandið er tekið úr viðtali sem birt var á landsvísu í sjónvarpi þar sem Dr. Fauci hrósar starfi ríkisstjórnar Trump. Það sem heyrist er það sem Dr. Fauci sagði,“ segir Murtaugh.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×