Innlent

50 greindust með veiruna innanlands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Biðröð í skimun hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Biðröð í skimun hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/vilhelm

50 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. 33 voru í sóttkví við greiningu en sautján utan sóttkvíar. 45 af 50 sem greindust eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.

23 sjúklingar liggja nú inni á Landspítalanum vegna Covid-19, að sögn Más Kristjánssonar yfirlæknis smitsjúkdómadeildar spítalans. Það er þremur sjúklingum færra en í gær þegar 26 manns voru inniliggjandi. Af þeim 23 sem eru á spítalanum núna eru þrír á gjörgæslu og þar af tveir í öndunarvél, jafnmargir og í gær.

Fimm greindust með veiruna á landamærum. 4.296 eru nú í sóttkví en voru 3.916 í gær. Alls eru 1.022 nú í einangrun með veiruna á landinu öllu.

Færri sýni voru tekin í gær en daginn þar áður, þegar 60 greindust með veiruna. Alls voru 789 einkennasýni tekin í gær, 448 sýni við landamæraskimun og 266 við sóttkvíar- og handahófsskimun.

Þórólfur ræddi á upplýsingafundi almannavarna í dag að of snemmt væri að hrósa happi í baráttu. Þótt smit væru færri þá hefðu umtalsvert færri sýni verið tekin um helgina. Öll nema fimm smit í gær hefðu verið hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu.

Þá er nýgengi innanlandssmita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa nú 240,3 en var 237,3 í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×