Innlent

Um­hugsunar­vert að nægt fjár­magn til Þing­valla sé ekki tryggt í fjár­lögum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikið tekjufall hefur orðið hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum frá því að kóronuveirufaraldurinn skall á. Öllum landvörðum á Þingvöllum var sagt upp störfum í dag.
Mikið tekjufall hefur orðið hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum frá því að kóronuveirufaraldurinn skall á. Öllum landvörðum á Þingvöllum var sagt upp störfum í dag. Vísir/Vilhelm

Landvarðafélagið harmar ákvörðun Þjóðgarðsins á Þingvöllum að segja upp öllum starfandi landvörðum hjá þjóðgarðinum. Það sé umhugsunarvert að ekki séu tryggðir nægir fjármunir í fjárlögum ríkisins til að sinna umhirðu og nauðsynlegri verndun svæðisins.

Átta landvörðum og einum verkefnisstjóra hjá þjóðgarðinum var sagt upp í morgun. Gestum hefur fækkað mikið á Þingvöllum síðustu mánuði og hefur algert tekjufall orðið í rekstri garðarins vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Í yfirlýsingu frá Landvarðafélagi Íslands segir að þrátt fyrir það sé nauðsynlegt að sinna landvörslu innan þjóðgarðsins áfram á meðan hann er opinn öllum, allan sólarhringinn alla daga ársins.

„Að ætlast til þess að aðrir starfsmenn þjóðgarðsins sinni störfum landvarða samhliða sínum störfum eru ekki ákjósanleg vinnubrögð og gerir lítið úr störfum landvarða,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir í yfirlýsingunni að nauðsynlegt sé að benda á að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er rekin á um 80 prósenta sértekjum. Hann sé elsti þjóðgarður landsins sem varðveiti helstu menningarminjar Íslands, Þinghelgina sem setur þjóðgarðinn á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

„Sérstöðu þjóðgarðsins lýkur ekki þar, heldur er jarðfræði og lífríki þjóðgarðsins einstakt á heimsvísu. Seinustu ár hefur þjóðgarðurinn fengið talsvert fjármagn til framkvæmda við byggingu innviða. Það verður að teljast umhugsunarvert að ekki séu tryggðir nægir fjármunir í fjárlögum ríkisins til að sinna umhirðu og nauðsynlegri verndun svæðisins óháð sértekjum,“ segir í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Uppsagnir á Þingvöllum

Átta landvörðum og einum verkefnisstjóra hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum var sagt upp í morgun. Tilkynng var um uppsagnirnar á starfsmannafundi í morgun að sögn þjóðgarðsvarðar. 

Sjö starfs­mönnum á Þing­völlum sagt upp

Sjö fastráðnum starfsmönnum Þjóðgarðsins á Þingvöllum í þjónustumiðstöðinni á Leirum og sömuleiðis versluninni í gestastofunni á Hakinu hefur verið sagt upp störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×