Tíska og hönnun

Lífið of stutt fyrir venjulegar töskur

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Heiðrún Björk Jóhannsdóttir hannar undir merkinu Ísafold design.
Heiðrún Björk Jóhannsdóttir hannar undir merkinu Ísafold design. Olga Björt Þórðardóttir

Heiðrún Björk Jóhannsdóttir hefur hannað og saumað töskur í 11 ár í bland við aðra fylgihluti. Síðustu fimm ár hefur hún nánast eingöngu framleitt töskur og fær innblástur frá flottum konum hér á landi og erlendis. Hefur hún meðal annars hannað töskur í anda Carrie Bradshaw, Röggu Gísla og Sigríðar Thorlacius.

„Upphaflega vann ég nánast eingöngu úr selskinni þar sem ég var búsett á Grænlandi og því hæg heimatökin að nálgast selskinnið. En eftir að ég flutti aftur heim til Íslands 2012 fór ég að blanda leðri saman við og þá gjarnan endurnýtti ég gamla leðurjakka og leðurflíkur. Svo hægt og rólega byrjaði ég að framleiða úr nýju leðri,“ segir Heiðrún um það hvernig töskuævintýrið byrjaði.

„Í dag er ég búin að koma mér upp góðum samböndum erlendis þar sem ég get nálgast gæða leður og þá liti sem heilla hverju sinni. Undanfarið hefur þróunin verið í þá átt að gera frekar fáar og öðruvísi töskur í bland við „múltífunktioanal“ töskur. Æ, lífið er of stutt fyrir venjulegar töskur og þær fást alls staðar.“

Mörg handtök á bak við hverja tösku

Áður fyrr seldi Heiðrún hönnun sína í verslunum en í kórónuveirufaraldrinum tók hún þá ákvörðun að taka töskurnar út búðum og setja áherslurnar á aðrar leiðir til að koma sér á framfæri.

Heiðrún Björk

„Fyrir því eru margar ástæður bæði persónulegar og praktískar. Síðustu ár hefur þróunin verið þannig að vefverslanir hafa verið að sækja í sig veðrið, svo mér fannst tilvalið að stökkva á þá lest. Það hentar líka vel þar sem það þarf ekki alltaf að máta töskurnar. Ég var búin að leggja mikla vinnu í vefverslunina isafolddesign.is en sökum anna náði aldrei að sinna þeirri síðu nógu vel. En þarna er ég með sterkt tæki í höndunum og ákvað því að kúpla mig út úr verslunarrekstri og smásölu og gefa vefversluninni tækifæri og meiri tíma. Þar að auki fannst mér ég aldrei ná að sinna almennilegri hönnunarvinnu og ná að þróa og vinna vörur og vörumerkið Ísafold nógu vel og eins og mig langaði til. Það er auðvitað tímafrekt að sinna verslun samhliða hönnunarvinnunni. Auk þess sitja markaðs málin svolítið á hakanum þegar maður er með hugann við að framleiða nóg til að fylla á hillur og í glugga svo allt líti vel út. 

Mig langaði til að framleiða einstakar töskur, ekki mikla fjöldaframleiðslu sem maður vill gjarnan detta í þegar þarf að sinna djúpum hillum verslunarinnar. Það er mikil vinna og mörg handtök á bakvið hverja tösku svo álagið á vinnustofunni því oft mikið. Þess vegna ákvað ég að forgangsraða og setja sjálfa mig og mína heilsu í forgang og sinna einungis vinnustofunni og vefversluninni. 

Og um leið vanda mig við markaðsmálin, sem er oft stórmál þegar kunnáttan er lítil. En það er svo sem ekki endanleg ákvörðun. Kannski ef réttur staður og rétt stund kemur þá væri ég hugsanlega til í að endurskoða þessa ákvörðun.“

Landsmenn ættu að hugsa sér nær

Heiðrún segir að margt mætti eflaust breytast varðandi hönnunarumhverfið hér á landi. „En nú á Covid tímum mætti huga betur að þeim sem eru að skapa sjálfum sér og í mörgum tilfellum öðrum atvinnu. Sértaklega núna ættu stjórnvöld og landsmenn að hugsa sér nær og styðja við bakið á íslenskri hönnun og framleiðslu. Nú sem endranær þurfum við á íslenskum kaupendum að halda.“

Heiðrún Björk

Hún segir samt að það séu forréttindi að vera hönnuður á Íslandi.

„Mér finnst Íslendingar flestir nýjungagjarnir og ófeimnir að prófa eitthvað nýtt. Persónulega finnst mér gott að fara út í íslenska náttúru og hreinsa hugann og drekka í mig fallega liti, form og ferska loftið og það er aldrei langt að fara til að finna þennan frið. Svo mætir maður ferskur og endurnærður við vinnuborðið sitt.“

Það erfiðasta fyrir hana er hvað það er dýrt að nálgast allt hráefni fyrir töskuframleiðsluna.

„Ég þarf til að mynda að sækja allt hráefni til útlanda með tilheyrandi kostnaði sem gerir það að verkum að það er erfitt að halda verði í lágmarki. Þess vegna er samkeppnin erfið við erlenda framleiðslu og innflutning.“

Mikið gæfuspor

Hún segist samt oft velta því fyrir sér af hverju það sé oft þannig að allir virðist velja það sama.

„Það er þessi hjarðhegðun íslenskra kvenna. Mér finnst margar konur hræddar við að taka ákvörðun um hvað er flott eða töff. Elta þar af leiðandi hvor aðra og fara í einu og öllu eftir áhrifavöldum samfélagsins. En sem betur fer þá eru samt sem áður til fullt af konum sem þora að skera sig úr og eru óhræddar að fara sínar eigin leiðir.“

Heiðrún er ein af þeim fjölmörgu listamönnum og hönnuðum sem eru með vinnustofu í Íshúsinu í Hafnarfirði.

„Ég kom einu sinni hingað þegar húsið hafði nýlega tekið til starfa og hreifst strax af „conseptinu“ og stemningunni í húsinu. Svo vildi svo heppilega til að það var laust pláss hérna þegar ég þurfti á því að halda. Það var mikið gæfuspor, ekki bara vegna þess að hér er leigan lág og sanngjörn heldur er fólkið í húsinu upp til hópa svo frábært og skemmtilegt, skapandi og drífandi. Ég byrjaði í litlu rými en var fljót að sprengja það utan af mér og er nú komin í gott og hlýlegt pláss þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Nú í vor bætti ég við mig smá auka plássi sem ég innréttaði og nota sem sýningarrými þar sem ég get tekið á móti þeim viðskiptavinum sem vilja koma og snerta og máta. Þetta er sennilega minnsta „showroomið“ á Íslandi en ég vill meina að það sé samt það litríkasta og flottasta.“

Hún segir að það sé dásamlegt að vinna í þessu skapandi umhverfi

„Hér er svo góður andi, húsið er skemmtilega innréttað og maður mætir einhvern veginn glaður á vinnustofuna sína alla daga. Það getur varla orðið betra en það svo hugmyndirnar flæða og vinnugleðin líka. Svo er aldrei langt að fara ef manni vantar aðstoð, efnivið eða klapp á bakið.“

Yoko Ono og Carrie Bradshaw

Fyrir rúmu ári síðan langaði Heiðrúnu að breyta til og gera eitthvað nýtt og spennandi. Það var þá sem hún byrjaði að hanna töskur með ákveðna þekkta einstaklinga í huga og hefur hugmyndin fengið góð viðbrögð.

„Stundum vel ég mér ákveðna persónu eða manneskju sem ég lít upp til, er með flottan stíl og er þess vegna áberandi í þjóðfélaginu eða jafnvel heimsfræg. Er litríkur og glaðlegur karakter eða falleg manneskja eða bara persóna út þáttum eða bíómyndum. Þetta byrjaði eiginlega með hvítu leðri. Einhverra hluta vegna fór ég að hugsa um John Lennon og Yoko Ono og hvíta flygilinn þeirra og þetta hvíta tímabil þeirra. Úr varð að ég uppfærði gamalt snið í nýjan búning og gerði hvíta tösku með Yoko Ono í huga. Einfalda, stílhreina og með gott notagildi. Mér fannst þetta svo gaman að ég ákvað að vinna áfram með þessa hugmynd. 

Svo langaði mig að gera tösku fyrir einhverja tískumeðvitaða og óhrædda konu sem þorir að hoppa út fyrir þægindaramman. Ég var orðin svo þreytt á að gera svartar „basic“, praktískar töskur með loki eða rennilás bara af því að það var eftirspurn eftir þeim.

 Ég var um þetta leyti að rifja upp gömlu góðu Sex and the City þættina á Netflix og óvart fór ég að gera tösku fyrir Carrie Bradshaw sem hún gæti tekið með sér í kokteilboðin, listasýningarnar og fleira. Úr varð þessi ílanga partýtaska sem er þeim kostum gædd að það má stinga I hana eins og einni léttri vínflösku, fyrir þær sem eru fyrir það. Svo er hún fóðruð með fjólubláu lökkuðu leðri sem mér finnst geggjað svalt.“

Heiðrún Björk

Alltaf elegant og smart

Heiðrún hefur líka fengið innblástur frá tónlistargyðjum hér á landi.

„Oft er það leðrið, liturinn og áferðin sem segir manni eitthvað. Þegar ég var komin með „gun metal“ leður í hendurnar datt mér strax Ragga Gísla í hug. Hún er alltaf mest kúl og svölust af öllum. Hún er oft í svörtu, pínu pönkari með keðjur og algjör töffari. Úr varð að hún var hún var mér innblástur í minni útfærslu af Carrie. 

Svo er það Sigríður Thorlacius. Mér finnst hún alltaf elegant og smart. Klassísk en samt með svolítið öðruvísi stíl og setur ávallt punktinn yfir i-ið með fallegum fylgihlutum. Það er jafnvel pínu 60‘s eða 70‘s stíll á henni þó hún sé alltaf einhvern veginn nútímaleg. 

Upp úr þessari blöndu varð þessi taska til. Einföld, klassísk, elegant, pínu sixties. Smart hvort sem þú ert að fara á tónleika, listasýningu eða bara spóka þig í bænum. Taskan er stór en passar samt flestum og er 50 cm í þvermál. Smellpassar á öxlina eða í olnbogann og fyrir þær hávöxnustu má leggja haldið í lófann. Ég mæli með að sveifla henni til og frá eins og þú eigir allan heiminn. Taskan, eins og Sigríður sjálf er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Langar að hanna fyrir Lady Gaga

Þó að þessar flottu konur hafi allar gefið Heiðrúnu innblástur í hönnunarferlinu þá er aðeins ein þeirra sem veit af því.

„Sigríður veit af nöfnu sinni og hún tók því bara mjög vel. En hinar eru alveg grunlausar. Þær frétta kannski af þessu einhvern daginn,“

Heiðrún Björk

Efst á lista Heiðrúnar í augnablikinu er að hanna tösku í anda Lady Gaga og er það verkefni komið á vinnuborðið hennar. Öllum töskunum fylgir skírteini og númer, þar sem aðeins fá eintök eru framleidd af hverri týpu.

„Mig langaði að lyfta töskunum og vörumerkinu Ísafold á hærra plan. Gera færri eintök og vanda enn meira til verks. Ég vil að kúnninn finni og sjái að taskan er einstök og ekki fjöldaframleidd. Í flestum tilfellum eru örfá eintök og þá helst bara ein í lit, þó í einhverjum tilfellum geri ég kannski tvær til þrjár svartar. Þó ég leggi mikla áherslu á að fjölda framleiða sem minnst þá eru samt tvær týpur undanþegnar reglunni. En þá er ég líka meira að einblína á notagildið og ég reyni þá að vinna með það að töskurnar séu svolítið „multifunctional.“ Þannig varð Múltítaskan til. Það er svona rúmlega lófastórt umslag og fæst hún í mörgum litum. Hana er hægt að nota sem „fannypack“ mittistösku, hliðartösku, crossbody eða umslag. Ólarnar er hægt að nota sem belti og svo fylgir henni líka keðja til að poppa hana upp. Þetta er án efa vinsælasta takan sem ég hef gert hingað til, þar til Mixmatch taskan varð til fyrir um ári síðan. Hún hefur þróast með tímanum í þá átt að það er hægt að kaupa tösku, ól, lítið símaumslag og litla kringótta buddu, allt saman eða í sitthvoru lagi og jafnvel allt í sitthvorum litnum og raða saman eins og hentar hverju sinni. Það er líka hægt að setja litlu töskurnar í ólina og hafa um mittið. Frábært þegar maður ferðast erlendis, þá er tilvalið að setja passann og símann í umslagið. Hún er líka í miklu uppáhaldi hjá mér. En þó þessar töskur séu framleiddar í meira magni en gengur og gerist hjá mér þá er litaúrvalið mikið og ekki margar í lit og þær fá líka sitt númer og sitt skírteini. Og öllum töskum fylgir fallegur rykpoki.“

Salan jókst í faraldrinum

Þó að Covid-19 faraldurinn hafi orðið til þess að Heiðrún breytti rekstrinum og hætti að selja í búðum, hefur hann ekki komið niður á töskuhönnuninni.

„Covid hefur sennilega meiri áhrif á verslun en netverslun. Ef eitthvað er þá hefur salan aukist frekar en hitt, þökk sé almennri aukningu í netverslun landans. Ég tók strax þá ákvörðun að senda frítt út á land og keyra heim að dyrum á höfuðborgarsvæðinu og fólk hefur verið duglegt að nýta sér það. Fólk er ekki að ferðast til útlanda svo þá er verið að gera vel við sig á annan hátt.“

Eins og er þá er líka nóg að gera hjá Heiðrúnu við að sauma andlitsgrímur vegna faraldursins, en margir velja að nota frekar fjölnota grímur en einnota.

„Þegar ég er búin að sauma einhvern skatta af pallíettu hlífðargrímum mun ég halda áfram með Lady Gaga og kannski fæðast einhverjar fleiri litríkar og formfagrar töskur áður en sólin hækkar aftur á lofti.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×