Amy Coney Barrett, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt til Hæstaréttar landsins, neitaði í dag að svara spurningu um hvað henni þætti um dómafordæmi sem veitir bandarískum konum rétt til þungunarrofs og hvort fella ætti það fordæmi úr gildi. Málið sem skapaði þetta fordæmi kallast Roe v.Wade.
Barrett situr fundi dómsmálanefndar öldungadeildarinnar þessa dagana en til stendur að greiða atkvæði um tilnefningu hennar þann 22. október. Í kjölfar þess yrði þingið kallað saman og allir öldungadeildarþingmenn greiða þá atkvæði um tilnefninguna.
Útlit er fyrir að atkvæði verði greidd eftir flokkslínum og þar sem Repúblikanar eru í meirihluta þýðir það að Barrett verði taki við Ruth Bader Ginsburg sem dó í síðasta mánuði.
Í upphafi fundarins í dag sagði Lindsey Graham, formaður dómsmálanefndarinnar, að hann ætlaði að gera allt sem hann gæti til að tryggja að tilnefning Barrett yrði staðfest. Repúblikanar hafa lagt mikið kapp á að gera það fyrir forsetakosningarnar þann 3. nóvember í næsta mánuði.
Þingkonan Diana Feinstein spurði Barrett út í afstöðu hennar gagnvart Roe v. Wade, þar sem fregnir hafa borist af því að dómarinn hafi í gegnum árin lýst yfir vanþóknun sinni á dómafordæminu og jafnvel skrifað undir yfirlýsingar um að fella eigi það úr gildi.
Hún sagðist ekki vilja svara þeirri spurningu því hún myndi ekki taka sæti í Hæstarétti með sérstaka afstöðu í huga. Hún myndi taka ákvörðun í hverju máli sem færi fyrir Hæstarétt fyrir sig.
Kannanir sýna að naumur meirihluti kjósenda í Bandaríkjunum er mótfallinn því að Barrett verði skipuð til Hæstaréttar þegar svo stutt er í kosningar. Þar að auki er mikill meirihluti kjósenda mótfallinn því að fordæmi Roe v. Wade verði fellt úr gildi.
Verði tilnefning Barrett staðfest verður hún sjötti dómarinn, af níu, sem skipuð var í embætti af íhaldssömum forseta. Demókratar óttast að með þeim meirihluta verði Roe v. Wade fellt úr gildi og sömuleiðis núverandi heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, sem kallast Obamacare í daglegu tali.
Hæstiréttur mun taka fyrir mál gegn Obamacare um viku eftir kosningarnar.
Áður en hún var spurð út í Roe v. Wade sagði Barrett að hún nálgaðist túlkun á stjórnarskrá Bandaríkjanna með íhaldssömum hætti. Hún myndi reyna að túlka stjórnarskránna eftir bókstaflegri skráningu ákvæða hennar.
„Bandaríkjamenn eiga sjálfstæðan Hæstarétt skilið, sem túlkar stjórnarskránna og lögin eins og þau eru skrifuð,“ sagði Barrett.