Útgöngubann til að hefta hraða útbreiðslu kórónuveirunnar tekur gildi í París og átta öðrum borgum í Frakklandi á laugardag. Emmanuel Macron, forseti, segir bannið verða í gildi í að minnsta kosti fjórar vikur. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna uppgangs veirunnar.
Íbúum í París, Marseille, Lyon, Lille, Aix-en-Provence, Rouen, Toulouse, Grenoble og Montpellier verður bannað að yfirgefa heimili sín á milli klukkan 21:00 og 6:00 að staðartíma samkvæmt aðgerðum sem Macron kynnti í dag.
Tæplega 23.000 manns greindust smitaðir af kórónuveirunni í Frakklandi í dag. Í sjónvarpsávarpi sagði Macron þessa bylgju faraldursins annars en þá sem gekk yfir í vor. Veiran hefði nú dreift sér um allt landið.
Varaði forsetinn við því að útgöngubannið gæti varað í allt að sex vikur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Markmiðið væri að koma í veg fyrir að fólk stundaði veitingastaði og færi í heimsóknir á önnur heimili.
„Við verðum að grípa til aðgerða. Við verðum að hamla útbreiðslu veirunnar,“ sagði Macron sem lýsti um leið skilningi á að erfitt væri að biðja fólk um að virða útgöngubann.
Skólar verða áfram opnir og fólk má ferðast á milli svæða að degi til. Íbúar þurfa gilda ástæðu til að vera utan heimilis síns á meðan útgöngubannið er í gildi.
Faraldurinn er nú í vexti víða í Evrópu og hafa fleiri ríki ákveðið að grípa til frekari takmarkana. Í Hollandi tekur vægara útgöngubann gildi í dag auk þess sem kaffihúsum og veitingastöðum hefur erið gert að loka. Í Katalóníu á Spáni verður börum og veitingastöðum lokað í fimmtán daga frá og með morgundeginum.