Erlent

For­seti Kirgistans segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Sooronbai Jeenbekov er þriðji forseti Kirgistans sem hrakinn er úr embætti á síðustu fimmtán árum.
Sooronbai Jeenbekov er þriðji forseti Kirgistans sem hrakinn er úr embætti á síðustu fimmtán árum. AP

Sooronbai Jeenbekov, forseti Kirgistans, hefur sagt af sér embætti.

Reuters segir frá þessu en mótmæli hafa staðið í landinu í hálfa aðra viku eftir umdeildar þingkosningar í landinu þar sem bandamenn forsetans hlutu mikinn meirihluta þingsæta.

Vildu mótmælendur meina að brögð hafi verið í tafli en í kosningunum hafði ákveðnum þröskuldi verið komið á sem varð til þess að aðeins fjórir flokkar af sextán sem voru í framboði komust inn á þing. Af þeim fjórum voru þrír hliðhollir forsetanum.

Eftir að mótmælin höfðu staðið í nokkra daga og mótmælendur hertekið þinghús landsins var ákveðið að ógilda kosningarnar.

Jeenbekov greindi frá því í síðustu viku að hann hugðist segja af sér, en ákvað svo að fresta afsögninni þar til að nýjar kosningar hefðu farið fram. Forsetinn virðist þó hafa látið undan þrýstingi og sagði af sér í morgun.

Jeenbekov samþykkti í gær tillögu meirihluta þingsins um að þjóðernissinninn Sadyr Japarov yrði gerður að forsætisráðherra landsins.

Jeenbekov er þriðji forseti Kirgistans sem hrakinn er úr embætti á síðustu fimmtán árum. Hann tók við embætti forseta síðla árs 2017 eftir að hafa áður gegnt embætti forsætisráðherra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×