Aðgangi framboðs Donalds Trump Bandaríkjaforseta á samfélagsmiðlinum Twitter var lokað tímabundið eftir að það deildi myndbandi um Joe Biden, mótframbjóðanda forsetans, sem stjórnendur Twitter töldu brjóta notendaskilmála miðilsins. Trump hótar Twitter málaferlum og repúblikanar á þingi vilja kalla forstjóra fyrirtækisins fyrir þingnefnd.
Myndbandið sem Trump-framboðið deildi vísaði til umdeildrar umfjöllunar götublaðsins New York Post með ásökunum á hendur Biden og syni hans Hunter frá því í gær. Yfirskrift myndbandsins var „Joe Biden er lygari sem hefur verið að ræna landið okkar um árabil“. Aðgangi Kayleigh McEnany, blaðafulltrúa Hvíta hússins, var einnig lokað tímabundið eftir að hún deildi frétt blaðsins.
Twitter taldi myndbandið stríða gegn reglum um birtingu á illa fengnum upplýsingum og benti á að framboðið gæti þurft að eyða því til að geta haldið áfram að deila efni á miðlinum. Fyrirtækið dró síðar í land og opnaði aftur fyrir aðgang framboðsins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Facebook greip einnig til aðgerða til þess að hægja á útbreiðslu fréttar New York Post í gær. Sagði talsmaður fyrirtækisins að það væri gert til þess að gefa staðreyndavökturum færi á að fara yfir sannleiksgildi hennar sem veruleg spurningarmerki hafa verið sett við.
Trump sagði búast við meiriháttar málaferlum og virtist boða einhvers konar aðgerðir gegn Twitter þegar hann var spurður út í uppákomuna í dag.
„Það eru hlutir sem geta gerst sem eru mjög alvarlegir sem ég vil heldur að gerist ekki en þeir verða líklega að gera það,“ sagði Trump, myrkur í máli.
Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem repúblikanar stýra ætlar að greiða atkvæði um að stefna Jack Dorsey, forstjóra Twitter, til að bera vitni strax í næstu viku. Dorsey viðurkenndi í gær að Twitter hefði ekki staðið sig vel í að gera grein fyrir aðgerðum sínum og að það hefði ekki verið ásættanlegt að koma í veg fyrir að notendur deildu vefslóð á fréttina án skýringa.