Á sjötta hundrað bandarískra og kanadískra hermanna verða staðsettir hér á landi næstu vikurnar. Áhafnaskipti taka lengri tíma en vanalega vegna strangra sóttvarnareglna.
Fréttablaðið segir frá þessu, en um er að ræða um 265 hermenn bandaríska flughersins sem komu til landsins í byrjun mánaðar vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins, NATO, og svo rúmlega 60 kanadískra hermanna sem eru á landinu vegna kafbátaeftirlits. Auk þess sinna 168 liðsmenn bandaríska sjóhersins eftirliti með kafbátum.
Þá hefur danski herinn einnig verið með ellefu hermenn hér á landi síðustu vikur vegna reglubundinnar skoðunar á þyrlu sem fylgir dönskum herskipum við Grænland.
Áður hefur verið greint frá því að vegna sóttvarnareglna séu hermennirnir lengur á landinu en annars hefði verið, en allir þurfa hermennirnir að fara í tveggja daga vinnusóttkví, auk hefðbundinnar landamæraskimunar. Þá voru þeir einnig í hálfs mánaðar sóttkví í sínu heimalandi, áður en þeir komu hingað til lands.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að tilviljun ráði því að verkefnin eigi sér öll stað hér á landi á sama tíma.
Fréttin hefur verið uppfærð.