Sport

Fékk tveggja ára bann fyrir að gefa leikmönnum peninga eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Odell Beckham Jr. fagnarhér  með liðfélögum sínum í Cleveland Browní leik á móti Pittsburgh Steelers.
Odell Beckham Jr. fagnarhér  með liðfélögum sínum í Cleveland Browní leik á móti Pittsburgh Steelers. AP/Don Wright

NFL-leikmaðurinn Odell Beckham Jr. má ekki koma nálægt neinu hjá Louisiana State University fótboltaliðinu næstu tvö árin eftir að hafa brotið reglur með því að gefa leikmönnum peninga í fagnaðarlátum háskólaliðsins í byrjun þessa árs.

NFL-stjarnan mætti með tvö þúsund dollara í seðlum niður á völl og gaf leikmönnum háskólaliðs LSU eftir að liðið varð háskólameistari í janúar. Það er bannað samkvæmt reglum NCAA.

Yfirmenn Louisiana State University tóku þá ákvörðun að loka dyrunum á Odell Beckham Jr. næstu tvö árin en á sama tíma þarf skólinn að ganga í gegnum erfiðleika hans vegna.

Leikmenn í bandaríska háskólafótboltanum mega ekki þiggja neinar greiðslur og LSU fékk alls konar refsingar fyrir það sem Odell Beckham Jr. gerði kvöldið sem LSU varð háskólameistari.

Liðið missti meðal annars átta skólastyrki næstu tvö árin og skólanum var einnig gert erfiðara fyrir í að sannfæra mögulega framtíðarleikmenn liðsins að koma í skólann.

Odell Beckham Jr. er fyrrum leikmaður LSU og mætti á úrslitaleikinn þar sem LSU vann 42-25 sigur á Clemson 13. janúar síðastliðinn.

Beckham Jr. spilar nú með Cleveland Browns í NFL-deildinni og er enn að lifa á risasamning sem hann fékk á sínum tíma frá New York Giants.

Beckham sló um sig með því að mæta með alla þessa peningaseðla og fagnaði sigrinum með því að gefa fjórum leikmönnum liðsins seðlana niður á vellinum eftir leikinn. Hann fékk síðan að fagna sigrinum með þeim inn í búningsklefa líka.

Odell Beckham Jr. skrifaði á sínum tíma undir fimm ára samning sem átti að skila honum 90 milljónum dollara eða 12,5 milljarða íslenskra króna.

Hann fékk 17 milljónir dollara í laun fyrir síðasta tímabil og á að fá 14,2 milljónir fyrir núverandi tímabil.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×