Viðskipti innlent

43 milljónir króna í sekt fyrir 15 milljóna króna skattsvik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag. Vísir/Vilhelm

Tæplega fimmtug kona hefur verið dæmt til greiðslu 43 milljóna króna sektar og í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot á skattalögum. Ávinningur konunar var á fimmtándu milljón króna en sekt hennar þreföld hærri. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag.

Konan rak einkahlutafélag en í umfjöllun um dóminn á vefsíðu Skattrannsóknarstjóra segir að konan hafi á árunum 2014 til 2015 vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum og stóð skil á efnislega rangri virðisaukaskattskýrslu á tæplega tveggja ára tímabili, færði hvorki bókhald né varðveitti bókhaldsgögn.

Bryndís Kristjánsdóttir er skattrannsóknarstjóri. Vakin er athygli á nýföllnum dómi á vefsíðu skattrannsóknarstjóra.Vísir/Frikki

Þá var konan ákærð fyrir peningaþvætti vegna ávinnings af brotunum. Konan taldi að dæma ætti lægri fjárhæð í málinu þar sem bókhaldsgögn hefðu glatast. Hefðu þau verið tiltæk hefði verið hægt að koma á leiðréttingum við skattayfirvöld.

Ekki var fallist á þetta og segir í dómsniðurstöðunni að það sé á ábyrgð skattgreiðanda að varðveita bókhaldsgögnin. Að það hefði ekki verið gert kæmi ekki til refsilækkunar. Þá breyti engu að líkur standi til að greiðsla komi upp í kröfur vegna brotanna.

Fjárhæðin sem skotið var undan nam tæplega 15 milljónum króna. Samkvæmt dómaframkvæmd í sambærilegum málum hafa sektir verið ákveðnar þreföld sú fjárhæð sem skattþegi hefur komið sér hjá að greiða. Sektarfjárhæð var því dæmd 43 milljónir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×