Enski boltinn

Lampard skildi Thiago Silva eftir heima

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva í leik með Chelsea á móti Manchester United um síðustu helgi.
Thiago Silva í leik með Chelsea á móti Manchester United um síðustu helgi. AP/Michael Regan

Brasilíumaðurinn Thiago Silva mun ekki spila með Chelsea í Meistaradeildinni í kvöld þegar liðið sækir rússneska félagið Krasnodar heim í annarri umferð riðlakeppninnar.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, ákvað að hvíla hinn 36 ára gamla Thiago Silva. Það var ekki bara gott fyrir Brasilíumanninn að fá frí frá leiknum heldur einnig að sleppa við ferðalagið.

Thiago Silva átti mjög góðan leik á móti Manchester United um síðustu helgi og virðist vera búinn að stimpla sig vel inn í Chelsea liðið.

Chelsea verður einnig án markvarðarins Kepa Arrizabalaga og varnarmannsins Marcos Alonso. Arrizabalaga er meiddur á öxl og Alonso er í banni en hann fékk þriggja leikja bann fyrir rautt spjald á móti Bayern München.

Þjóðverjinn Antonio Rudiger gæti fengið tækifærið í forföllum Thiago Silva en Rudiger hefur verið utan hóps í sex af sjö leikjum tímabilsins.

Chelsea liðið gerði markalaust jafntefli á móti Sevilla í fyrsta leiknum sínum í Meistaradeildinni og það er því pressa á liðinu að vinna nýliðana í kvöld.

Krasnodar er komið svona langt í fyrsta sinn en félagið er í mikilli brekku þessa dagana og vantar átta leikmenn úr aðalliðinu.

Remy Cabella, fyrrum leikmaður Newcastle, og Evgeniy Markov fengu jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi og sóknarmennirnir Wanderson og Viktor Claesson eru að glíma við meiðsli. Heimamennirnir Ruslan Kambolov og Aleksandr Cherkinov eru líka tæpir fyrir leikinn og þá eru þeir Sergey Petrov og Dmitri Stotskiy á meiðslalistanum.

Knattspyrnustjórinn Murad Musayev býst við því að tefla fram sama liði og tapaði 3-1 á móti Spartak Moskvu í rússnesku deildinni um helgina.

Leikur Krasnodar og Chelsea hefst klukkan 17.55 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4. Meistaradeildarmessan mun fylgjast með öllum leikjum kvöldsins frá klukkan 19.30 á Stöð 2 Sport 2 en stórleikur kvöldsins er leikur Juventus og Barcelona á Stöð 2 Sport 5 klukkan 20.00.

Leikur Manchester United og Leipzig verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 klukkan 20.00 og þá verður leikur Dortmund og Zenit St. Pétursborg í beinni á sama tíma á Stöð 2 Sport. Meistaradeildarmörkin gera síðan upp kvöldið á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×