Fótbolti

Guð­laugur Victor skoraði í jafn­tefli | Bjarki Steinn og Emil duttu úr bikarnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðlaugur Victor kom sínum mönnum yfir í kvöld en það dugði því miður ekki til sigurs.
Guðlaugur Victor kom sínum mönnum yfir í kvöld en það dugði því miður ekki til sigurs. Darmstadt

Nokkrir íslenskir leikmenn voru í eldlínunni með liðum sínum í kvöld. 

Guðlaugur Victor Pálsson tryggði Darmstadt stig í þýsku B-deildinni. Þá féllu Bjarki Steinn Bjarkason og Emil Hallfreðsson úr leik með liðum sínum í ítalska bikarnum. 

Guðlaugur Victor kom Darmstadt á bragðið eftir hálftímaleik á útivelli er liðið mætti Osnabrück í þýsku B-deildinni. Var Darmstadt 1-0 yfir allt fram á 78. mínútu leiksins er heimamenn jöfnuðu metin og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Stigið gerir lítið fyrir Darmstadt sem er í 11. sæti þegar fimm umferðir eru búnar. Var þetta þriðja jafntefli liðsins en liðið hefur aðeins unnið einn leik til þessa ásamt því að tapa einum.

Bjarki Steinn var í byrjunarliði Venezia sem mætti úrvalsdeildarliði Hellas Verona í ítalska bikarnum en Venezia leikur í B-deildinni þar í landi. Verona komst í 2-0 en Bjarki Steinn og félagar náðu að jafna metin á síðustu tíu mínútum leiksins. Staðan 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja.

Þar komst Venezia yfir en heimamenn í Verona jöfnuðu skömmu síðar. Staðan 3-3 að lokinni framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar reyndust Verona sterkari og eru því komnir áfram í næstu umferð.

Bjarki Steinn átti gott skot í upphafi síðari hálfleiks en náði því miður ekki að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Óttar Magnús Karlsson var ekki í leikmannahópi liðsins að þessu sinni.

Þá fékk Emil Hallfreðsson gult spjald er lið hans – C-deildarlið Padova – tapaði fyrir efstu deildarliði Fiorentina í ítalska bikarnum í kvöld, lokatölur 2-1.

Þó komst Brescia, lið Birkis Bjarnasonar og Hólmberts Aron Friðjónssonar, áfram eftir 3-0 sigur á Perugia. Hvorugur Íslendingurinn var með liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×