Enski boltinn

Heims- og Evrópumeistarinn Nobby Stiles látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nobby Stiles (lengst til hægri) fagnar heimsmeistaratitlinum 1966 ásamt Alf Ramsey og Bobby Moore.
Nobby Stiles (lengst til hægri) fagnar heimsmeistaratitlinum 1966 ásamt Alf Ramsey og Bobby Moore. getty/Hulton Archive

Nobby Stiles, sem varð heimsmeistari með enska landsliðinu og Evrópumeistari með Manchester United, er látinn, 78 ára. Stiles hafði lengi glímt við Alzheimer og krabbamein.

Stiles ólst upp hjá United og lék með félaginu nær allan sinn feril. Hann varð Englandsmeistari með United 1965 og 1967 og Evrópumeistari 1968.

Stiles lék 28 landsleiki fyrir England og var hluti af enska liðinu sem varð heimsmeistari á heimavelli 1966. Hann er einn þriggja Englendinga sem hafa bæði orðið heims- og Evrópumeistarar ásamt Sir Bobby Charlton og Ian Callaghan.

Stiles lék sem varnarsinnaður miðjumaður og fékk það hlutverk bæði með United og enska landsliðinu að dekka portúgalska snillinginn Eusébio. Hann gerði það í undanúrslitum HM 1966 þar sem England vann Portúgal, 2-1, og í úrslitaleik Meistaradeildarinnar tveimur árum síðar þegar United sigraði Benfica, 4-1.

Eftir að ferlinum lauk þjálfaði Stiles Preston North End, Vancouver Whitecaps og West Brom. Þá var hann þjálfari í unglingaakademíu United og þjálfaði m.a. hinn fræga '92-árgang.

Stiles var í byrjunarliði Englendinga þegar þeir unnu Vestur-Þjóðverja í úrslitaleik HM 1966. Eftir leikinn steig hann frægan dans með heimsmeistarastyttuna í annarri hendi og fölsku tennurnar sínar í hinni. Dansinn kemur fyrir í laginu fræga, Three Lions (Football's Coming Home).

Eftir andlát Stiles eru aðeins fjórir af ellefu úr byrjunarliði Englands í úrslitaleik HM 1966 á lífi: George Cohen, Sir Bobby Charlton, Geoff Hurst og Roger Hunt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×