Ellefu tilkynningar hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi vegna gruns um brot á sóttvarnareglum sem tóku gildi á miðnætti í nótt. 56 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær.
Af þeim 56 sem greindust innanlands í gær voru 17 utan sóttkvíar. 64 eru á gjörgæslu líkt og í gær. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að um 200 smit megi rekja til Landakots.
„Sú tala fer kannski eitthvað vaxandi en svo fara menn kannski að missa töluna á henni en hún er af þessari stærðargráðu,“ sagði Þórólfur.
Hertar aðgerðir hafa tekið gildi og þurfa nú börn sex ára og eldri að bera grímur og viðhafa tveggja metra fjarlægðarmörk. Aðeins mega tíu koma saman og er ýmiskonar starfsemi gert að loka.
Ellefu tilkynningar um brot á sóttvarnareglum
Ellefu tilkynningar hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi vegna gruns um brot á þeim sóttvarnareglum sem tóku gildi á miðnætti.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að nokkrar tilkynningana snúi að verslunum. Dæmi séu um að gestir verslana neiti að framfylgja reglum um grímuskyldu svo dæmi sé tekið. Einnig snúi tilkynningar að því að verslanir fylgi ekki reglum.
Þá séu dæmi um hópamyndun og að fólk reyni að komast hjá reglum með því að heimfæra viðburð eða athöfn undir undanþáguheimild.
Fjórar tilkynningar um heimilisofbeldi
Flytja þurfi einn á sjúkrahús í nótt vegna heimilisofbeldis. Fjórar tilkynningar um heimilisofbeldi voru tilkynntar lögreglu í gærkvöld og nótt.
Ríkislögreglustjóri sagði á upplýsingafundi almannavarna í mánuðinum að aukin hætta væri á ofbeldi á tímum áfalla líkt og í kórónuveirufaraldrinum