Erlent

Stöðva réttar­höld vegna kórónu­veiru­smits sak­bornings

Sylvía Hall skrifar
Frá vitnaleiðslum í september.
Frá vitnaleiðslum í september. EPA/IAN LANGSDON

Einn sakborningur í réttarhöldum vegna árásarinnar gegn franska tímaritinu Charlie Hebdo hefur greinst með kórónuveirusmit. Sakborningurinn, Ali Reza Polat, greindist með veiruna á föstudag og hefur dómari fyrirskipað að aðrir sakborningar málsins þurfi einnig í sýnatöku áður en réttarhöldin geti haldið áfram. 

Réttarhöld hófust þann 2. september síðastliðinn. Réttað hefur verið yfir fjölda aðila sem sakaðir eru um að hafa komið að árásinni gegn tímaritinu í janúar 2015 þegar bræðurnir Said og Cherif Kouachi réðust inn í húsnæði Charlie Hebdo í París og hófu skothríð. Þegar dagurinn var úti lágu tólf í valnum, þar af átta starfsmenn tímaritsins.

Tímaritið ákvað að endurbirta umdeildar skopmyndir af spámanninum Múhameð vegna réttarhaldanna, en myndirnar eru sagðar kveikjan að árásinni. 

Kórónuveirusmitið mun að öllum líkindum koma til með að fresta dómsuppkvaðningu í málinu, en réttarhöldin eru umfangsmikil og voru til að mynda 140 vitni sem gáfu vitnisburð. Nú þegar hafði réttarhöldunum verið frestað um fjóra mánuði vegna kórónuveirufaraldursins.

Ef allt hefði gengið samkvæmt áætlun væri von á dómi eftir um það bil tvær vikur samkvæmt frétt BBC

Polak er sagður hafa verið helsti tengiliður milli árásarinnar á tímaritið og annarra árása, annars vegar á lögreglukonu og hins vegar matvörumarkað gyðinga. Hann er sagður hafa meðal annars útvegað skotvopn. Alls létust sautján í árásunum.


Tengdar fréttir

Tyrkir í hart vegna skopmyndar af Erdogan

Tyrklandsstjórn ætlar að grípa til bæði lagalegra og diplómatískra aðgerða vegna nýrrar skopmyndar franska blaðsins Charlie Hebdo af Recep Tayyip Erdogan forseta.

Franskir kennarar vilja leiðbeiningar og vernd

Franskir kennarar segjast ritskoða sjálfa sig til að forðast deilur við nemendur og kennara vegna trúarbragða og málfrelsis. Hrottalegt morð kennara, sem var myrtur vegna skopmynda af Múhammeð spámanni sem hann sýndi nemendum, hefur vakið mikla reiði í Frakklandi og komið af stað umræðu um frönsk gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×