Erlent

Harka færist í leikinn - Trump krefst endurtalningar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Meirihluti póstatkvæðanna hefur fallið Biden í skaut, sem var fyrirsjáanlegt og ástæða þess að Trump hefur löngum kallað umrædd atkvæði svindl.
Meirihluti póstatkvæðanna hefur fallið Biden í skaut, sem var fyrirsjáanlegt og ástæða þess að Trump hefur löngum kallað umrædd atkvæði svindl. epa/CJ Gunther

Donald Trump hefur farið mikinn á Twitter í dag og heldur því nú bæði fram að unnið sé að því að láta atkvæði hverfa og að á sama tíma séu að „finnast“ atkvæði til handa andstæðingi hans í forsetakosningunum, Joe Biden. Mörg tístanna hafa verið flögguð sem umdeild og/eða villandi.

Úrslit eru enn óljós í sex ríkjum; Wisconsin, Norður Karólínu, Michigan, Georgíu, Nevada og Pennsylvaníu en Associated Press hefur lýst Biden sigurvegara í Arizona, þrátt fyrir að talningu þar sé ekki lokið.

Kosningateymi Trump hefur lýst því yfir að endurtalningar verði krafist í Wisconsin en þar á aðeins eftir að telja 300 atkvæði. Biden hefur um 20 þúsund atkvæða forskot á Trump og segir New York Times ólíklegt að endurtalning muni breyta úrslitum.

Atkvæðamunurinn þarf að vera 1% til að hægt sé að krefjast endurtalningar en forskot Biden stendur í 0,6 stigum.

Atkvæði sannarlega að hverfa?

Það vekur athygli að Trump kann að hafa rétt fyrir sér þegar hann gefur í skyn að athvæði hafi horfið. Bandaríska póstþjónustan hefur greint frá því að um 300 þúsund atkvæði hafi verið skönnuð inn í póstkerfið en ekki skönnuð út, þ.e. mögulega ekki skilað sér til kosningayfirvalda.

Póstþjónustan segir líkur á að hluti atkvæðanna hafi engu að síður ratað á réttan stað og þrátt fyrir fjöldann er óljóst hvaða áhrif „hvarfið“ hefur á niðurstöður kosninganna. Það gæti þó mögulega skipt sköpum, ekki síst þegar horft er til þess að í sumum ríkjum er það sendingardagurinn en ekki móttökudagurinn sem ræður því hvort atkvæðið er gilt.

Mikill meirihluti póstatkvæða hefur fallið Biden í skaut.

Á síðasta klukkutímanum hefur forsetaefni Demókrataflokksins bætt aðeins við sig í Michigan, þar sem hann hefur nú 0,8 stiga forskot á Trump. Þá stendur hann framar í Wisconsin og Nevada en Trump hefur enn sem komið er hlotið fleiri atkvæði í Norður Karólínu, Georgíu og Pennsylvaníu.

Enn er afar mjótt á munum milli frambjóðendanna en samkvæmt kosningaspálíkanni New York Times eru 93 leiðir að sigri opnar Biden og 31 ein leið opin Trump. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×