Erlent

Biden eygir kjörmennina 270 en Trump gæti enn sigrað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úrslit munu varla liggja fyrir í kvöld, þar sem Biden þarf að sigra í Nevada til að komast í Hvíta húsið og þar verður ekkert gefið upp um ótalin atkvæði fyrr en á morgun.
Úrslit munu varla liggja fyrir í kvöld, þar sem Biden þarf að sigra í Nevada til að komast í Hvíta húsið og þar verður ekkert gefið upp um ótalin atkvæði fyrr en á morgun. epa/Justin Lane

Helstu miðlar hafa nú lýst Joe Biden sigurvegara forsetakosninganna í Wisconsin. Það þýðir að Biden nægir að halda naumu forskoti sínu í Michigan og Nevada til að ná 270 kjörmönnum, sem hann þarf til að tryggja sér Hvíta húsið.

Trump hefur þegar gefið út að hann muni krefjast endurtalningar í Wisconsin en forskot Biden telur um 20 þúsund atkvæði.

Framan af þótti Biden þurfa að tryggja sér kjörmenn Pennsylvaníu en ef hann tekur Michigan og Nevada gildir einu þótt Trump sigri í bæði Pennsylvaníu og Georgíu. Trump hefur forskot í báðum ríkjum.

Engra frétta er að vænta frá Nevada fyrr en á morgun en þar hafa 86% atkvæða verið talin, samkvæmt New York Times. Þar hefur Biden 0.6 stiga forskot. Úrslita er hins vegar að vænta í kvöld í bæði Michigan og Georgíu.

Joe Biden er í ágætri stöðu en Trump gæti enn skotið honum ref fyrir rass.epa/Sarah Silbiger

Fjölmiðlar fara varlega í yfirlýsingar

Miðað við forsendur ætti Biden að bera sigur úr býtum í Michigan og Nevada, þar sem mörg póstatkvæði eru ótalin. Fjölmiðlar vestanhafs hafa hins vegar lært af atburðarásinni 2016 og stíga varlega til jarðar þegar kemur að spádómum um úrslit.

Jafnvel þótt Associated Press og Fox News hafi t.d. þegar lýst yfir sigri Biden í Arizona setja New York Times og Washington Post enn fyrirvara vegna þeirra atkvæða sem enn eru ótalin. Þá eru stuðningsmenn Trump ósannfærðir.

Hvað varðar þau ríki sem eftir eru telur Washington Post líkur á að Trump landi bæði Pennsylvaníu og Georgíu. Biden þykir hins vegar nokkuð öruggur með sigur í Nevada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×